Það er bara eitthvað betra og skemmtilegra við að labba/hjóla/hlaupa í hring heldur en fram og til baka. Nýtt umhverfi allan tímann og meiri ánægja af því. Bættu svo við vatni við leiðina og hún verður ennþá skemmtilegri að okkar mati! Hérna eru topp 5 stöðuvötnin í grennd við Höfuðborgarsvæðið sem gaman er að hringa.
Eins og áður er listinn ekki í neinni ákveðinni röð.
Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði – ca. 2 km.
Umhverfið í kringum vatnið er mjög fallegt og vel gróið, hluti er skógi vaxinn og göngustígurinn gengur um allar trissur, að vatninu og inn á milli trjáa. Þetta er skemmtileg gönguleið og vel fær öllum, hentar t.d. sem fjölskylduferð þar sem hægt er að labba að vatninu og busla í því í leiðinni. Við vatnið er einnig fín grillaðstaða fyrir þá sem vilja taka þetta alla leið og gera sér glaðan dag.
Vífilsstaðavatn í Garðabæ – ca. 2,5 km.
Vatnið liggur í fallegu umhverfi rétt hjá Vífilsstaðaspítalanum. Eftir að búið er að leggja bílnum og stíga nokkur skref er maður kominn í paradís, fjarri bænum…eða svo finnst manni. Hringurinn í kringum vatnið liggur meðfram því, á bökkum og um móana. Á sumrin er hægt að sjá veiðimenn spreyta sig í vatninu þó svo að undirritaður hefur aldrei náð að landa afla hér.
Rauðavatn í Reykjavík – ca. 3 km.
Hringurinn hér er aðeins lengri en þess virði. Rauðavatn skartar sínu fegursta hvort sem er á sumrin eða að vetri til. Umhverfið í kringum vatnið er að hluta vel vaxið en einnig flatt og þægilegt yfirferðar. Hér er algengt að rölta við hlið hestafólks eða hlaupara og hjólara, algjör útivistarparadís. Vatnið er grunnt á mörgum stöðum og því gaman að koma á sumrin og busla með fjölskyldunni. Einnig hefur verið góð sílaveiði í því í gegnum tíðina…ekki gleyma því háfnum!
Hafravatn í Reykjavík – ca. 5 km.
Og enn lengjum við hringinn og erum komin að Hafravatni, þetta sem við sjáum flest þegar við göngum á Úlfarsfellið góða. Umhverfis vatnið liggur ágætur stígur sem hægt er að fylgja þó svo hann sjáist ílla á kafla. Gengið er um móa og gróður og leiðin nokkuð þægileg. Á leiðinni má sjá fjölda allan af sumarhúsum. Sagan segir að í vatninu lifir stór hestur með hófa sem snúa aftur á bak, því ber að fara varlega hér…
Reynisvatn í Reykjavík – ca. 1 km.
Síðast en alls ekki síðst, minnsta vatnið og ein mesta perlan, Reynisvatn. Hringurinn hér er mjög stuttur en umhverfið mjög fallegt. Stígurinn liggur um vaxið landslag og hægt er að lengja leiðina með því að ganga inn í skóginn sem er við vatnið. Í vatninu er fiskur og hægt er að sjá hann hoppa af og til þegar vatnið er spegilsslétt. Þetta er upplagður staður til að leyfa þeim allra minnstu að spreyta sig á veiðinni.
Hérna eru dæmi um fimm skemmtilegar leiðir í kringum vötnin okkar – þegar maður er ekki í stuði fyrir fjallgöngu þá er þetta skemmtileg tilbreyting sem ætti að henta flestum. Dragið nú félagan, makan, krakkana eða bara heyrnatólin ykkar með út og prófið þessar leiðir.
Af stað…í kringum vötnin okkar!
Comments are closed.