Þessi spurning kemur reglulega upp enda hefur viðhald skelfatnaðar verið á milli tanna útivistarfólks í langan tíma. Í gamla daga var mælt með því að þvo fatnaðinn eins sjaldan og maður gat. Það var gert til þess að viðhalda eiginleikum efnis í sem lengstan tíma og tryggðu framleiðendur aðeins ákveðna notkun og töldu að of mikill þvottur skemmdi efnið til lengri tíma.
En eins og með allt annað í þessum heimi, raftæki, bíla, matvöru o.fl., þá taka hlutir breytingum og oftast til betri vegar. Það sama hefur gilt um regnheld efni, s.s. þau sem eru notuð í skeljum, jökkum og buxum. Efnin, nánar tiltekið filman sem límd er innan á þau, hefur tekið miklum framförum og í dag eru þessar flíkur búnar tveimur eiginleikum, annars vegar að henda út svita og anda vel frá líkamanum og hins vegar að halda regni úti og hrinda því frá sér. Sem sagt, efnið virkar eins og innstreymisloki sem opnast aðeins í aðra áttina. Ekki flókið er það…?
En…og það er alltaf en…til þess að þessi innstreymisloki (skelin) virki þá þarf að hugsa um hann, hreinsa og þvo reglulega. Já, hér kemur einfalda svarið við spurningunni sem var lögð fyrir í upphafi. En haltu áfram að lesa ef þú vilt fræðast nánar um þetta.
Hversu oft? Góð spurning! Þar sem við notum hlífðarfatnaðinn aðeins þegar þannig á stendur þá þarf ekki að þrífa hann jafn oft og t.d. göngubuxurnar eða ullarfatnaðinn. Við hjá Af Stað hreinsum skeljarnar okkar eftir þörfum og notkun, að öllu jöfnu einu sinni í mánuði nema þær séu drullugar, þá oftar.
Hvernig? Ennþá betri spurning! Svarið er mjög einfalt. Í þvottavél, á 30°C, með mildu fljótandi þvottaefni. ALLS EKKI nota mýkingarefni eða sterkt þvottaefni eins og Ariel. Það mun eyða filmunni á efninu sem við viljum hugsa vel um.
Má setja í þurrkara? Hugsanlega besta spurningin! Og svarið er ekki eins einfalt og áður. Framleiðendur eru varkárir hér þar sem þurrkun með hita getur oft farið ílla með flíkina…EF ekki er farið rétt að. Við segjum EF vegna þess að þurrkari getur gert skel gott og endurlifgað hana. Hvernig? Jú það er einfalt. Skeljar eru með límdum saumum, það er að segja, öll samskeyti sem saumuð eru saman eru síðan límd til að viðhalda vatnsvörn. Þetta lím eyðist með tíma og brotnar niður. Það er hins vegar hægt að kreista meira út úr því. Og þar kemur þurrkarinn og hitinn inn. Þurrkarinn hitar upp límið og svo þegar það kólnar þá harðnar það aftur og límir samskeytin upp á nýtt. Nokkuð einfalt mál en að sjálfsögðu þarf að fara varlega hér, þurrka aðeins á lægsta hita og í stuttan tíma, um 10 mínútur ættu að duga.
Með hvaða efnum? Góð aukaspurning. Eins og áður hefur komið fram þá er mælt með mildu þvottaefni, fljótandi, og ekki neinu öðru (mýkingarefni). Einnig er hægt að nota þar til gerð efni frá NikWax, t.d. Tech Wash og Direct Wash eftir það til að viðhalda eða endurvekja vatnsvörnina.
Við vonum að þetta varpi betra ljósi á það hvernig eigi að hreinsa og hugsa um hlífðarfatnaðinn svo hann endist betur. Munið bara eitt, ef fatnaðurinn er notaður þá mu hann slitna með tíma, það er ekki til eitthvað sem heitir lífstíðareign.
Af stað…allir inn í þvottahús að þvo!
Comments are closed.