Press "Enter" to skip to content

Merino ull

“Þessi flík inniheldur 100% merino ull” er eflaust eitthvað sem þið hafið heyrt eða lesið á merkimiðum. En hvað er merino ull og afhverju er hún notuð í svona miklu mæli.

Merino kindin hefur ættir sínar að rekja til Spánar en sú sem við þekkjum hvað best í dag er ræktuð í Ástralíu. Þar eru um 60.000 bændur um land allt að rækta kindur og vinna úr þeim afurðirnar, þar á meðal ullina. Saga ullarinnar er ekki gömul og er talið að fyrstu nútaímaflíkur hafi verið framleiddar upp úr árinu 1950. Í dag er hægt að finna merino ullina í hinum ýmsu flíkum s.s. útivistarundirfötum, barnafatnaði og fíngerðum tískufatnaði.

En afhverju er merino ullin svona góð og mikið notuð?

Fyrst ber að nefna að ullin er mjög þunn en jafnframt mjög heit. Það er því hægt að búa til flíkur úr henni sem eru meðfærilegar, þunnar og aðsniðnar, en jafnframt mjög heitar og halda eiginleikum sínum þrátt fyrir að vera þunnar. Hver hefur ekki lent í því að horfa á merino bol í útivistarverslun og hugsa með sér “á þetta að halda á mér hita?”

Hinir örþunnu þræðir Merino ullar

Merino ullin hefur líka þann eiginleika að anda vel. Það kann að hljóma skringilega að hún andi vel þar sem hún heldur hita líka en það er raunin. Þræðirnir eru örþunnir og draga í sig loft, bólgna út og halda þannig einangrun. Þeir henda svo frá sér raka og halda líkamanum þurrum þegar flíkin er notuð sem innsta lag. Það er líka vert að minnast á að flíkur úr merino ull þorna hratt þegar þær komast í snertingu við vatn og missa ekki eiginleika sína þrátt fyrir að blotna. Þess vegna velja margir innsta lag úr merino í lengri göngum og bakpokaferðalögum, þá er hægt að henda flíkinni til þerris á milli daga án þess að það taki langan tíma.

Að lokum þurfum við að nefna lyktina…því hún er lítil sem engin! Já, einn af eiginleikum merino ullar er að hún dregur ekki í sig jafn mikla lykt og aðrar flíkur. Þess vegna hentar hún enn of aftur vel í lengri ferðir, sérstaklega innan um annað fólk. Um leið og smá lykt er komin í flíkina er hægt að þvo hana upp úr þar til gerðum efnum og flíkin verður eins og ný.

Innsta lag gert úr merino ull

Þar sem merino er hráefni þá er það ekki bundið við neinn ákveðinn framleiðanda, því er hægt að finna flíkur gerðar úr ullinni hjá hinum ýmsu merkjum. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hjá “sínu” merki eða framleiðanda.

 

Af stað nú…allir að prófa merino ull!