Press "Enter" to skip to content

Helgafell í Hafnarfirði

Þau eru nokkur Helgafellin og að þessu sinni ætlum við að fjalla um það sem stendur við Kaldársel í Hafnarfirði. Heimafjall Hafnfirðinga og eitt vinsælasta fjallið á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og áður segir liggur fjallið, eða fellið réttara sagt, við Kaldársel í Hafnarfirði. Til að komast þangað þarf að keyra í átt að Kaldárseli í gegnum hesthúsabyggðina fyrir ofan Hafnarfjörð. Nú hefur verið komið fyrir nýju og glæsilegu bílastæði í um 500m fjarlægð frá hinu gamla og geta því allir fengið stæði á góðum stað.

Gangan hefst frá bílastæðinu og stefnt er á fjallið sem sést víðsvegar frá. Gangan að fjallinu tekur smá tíma og gott er að nýta þann tíma í upphitun, ganga rösklega og vera þá undirbúinn undir hækkunina sem tekur svo við. Leiðin er greinileg með stórum vörðum með reglulegu millibili og því auðvelt að rata. Þó skal varast ef maður lendir í þoku og því alltaf öruggara að vera með GPS tæki meðferðis.

Þegar komið er nær fjallinu er hægt að velja á milli tveggja vinsælla leiða, upp öxlina vinstra megin eða beint í gegnum gilið. Við tökum gilið í dag og stefnum beint á það. Sú leið er brattari á fótinn en örlítið styttri. Gengið er á móbergi sem er þægilegt á fótinn og veitir manni gott grip. Þegar gilið hefur verið klárað tekur næsta hækkun við, alla leið á toppinn.

Þegar komið er á toppinn verðlaunar hann mann með glæsilegu útsýni til allra átta, frá Bláfjöllum, yfir höfuðborgarsvæðið og Esjuna, Snæfellsnesið og svo Reykjanesið og Keili. Hér erum við í “aðeins” 340m hæð en útsýnið svíkur engan. Að öllu jöfnu tekur það um 45 mín að komast á toppinn og því er þetta góð æfing, hvort sem um helgi eða eftir vinnu um ræðir. Á leiðinni er einnig margt að sjá, bergmyndir um allar trissur sem hafa mörg andlit.

Við mælum með þessu felli fyrir alla þá sem vilja komast út í smá tíma og anda að sér fersku lofti.

 

Af stað nú…allir á Helgafell!