Höldum áfram þar sem frá var horfið í fyrri hluta! Nú eru allir komnir með tæki í hendurnar og því er upplagt að snúa sér að notkuninni sjálfri. Í upphafi er sterkur leikur að átta sig á eftirfarandi skilgreiningum sem snúa að því hvernig við rötum og finnum skilgreinda staði. Í stuttu máli:
- FERLAR (Tracks): Ferlar eru samansafn ferilpunkta (oft þúsunda) sem saman mynda línu á kortinu í tækinu. Tækið skráir sjálfkrafa okkar eigin feril í hverri göngu sem gerir okkur kleift að elta ferilinn til baka á upphafsstað ef eitthvað óvænt kemur upp (ef við missum t.d. skyggni og villumst). Hægt er að hlaða ferlum frá öðru göngufólki inn í tækið ef við viljum feta í fótspor þess. Þegar við göngum eftir ferlum annarra er í raun eina hlutverk okkar að elta línuna sem gerir rötun almennt mjög þægilega.
- STAÐARPUNKTAR (Waypoints): Staðarpunktur er ein ákveðin staðsetning, auðkennd með hniti. Við notum staðarpunkta ýmist til að merkja áhugaverða eða mikilvæga staði á göngum okkar, eða til að finna slíka staði sem aðrir hafa merkt á undan okkur.
- LEIÐIR (Routes): Leiðir eru einfaldlega samansafn af staðarpunktum. Þegar við opnum leið í tækinu okkar veljum við oftast áttavitann til að fá upplýsingar um stefnu og fjarlægð í fyrsta punkt. Þegar við náum þeim punkti fáum við upplýsingar um þann næsta, og svo koll af kolli. Við getum einnig skoðað leiðina á kortinu í tækinu, en höfum í huga að án gefinna forsenda mun tækið draga beina loftlínu milli staðarpunkta. Við eltum því ekki línuna eins og þegar við göngum eftir ferlum. Þetta er gott að muna þegar við veltum fyrir okkur vegalengd leiðar; beinar loftlínur milli staðarpunkta þýða að uppgefin vegalengd er styttri en raungönguleiðin verður.
Í enn styttra máli getum við sagt að:
Ferlar = hvar við höfum verið.
Leiðir = hvert við ætlum að fara.
Ferlar eða leiðir?
Við getum búið fyrirfram til okkar eigin ferla eða leiðir í sérhæfðum forritum (t.d. Garmin BaseCamp) eða á vefsíðum (t.d. Gaia GPS). Einnig getum við fundið ferla á netinu sem aðrir hafa gengið, t.d. á Wikiloc sem við höfum áður skrifað um.
Algengt er að finna áhugaverða ferla á netinu, hlaða þeim inn í tækið og elta. Þetta er sérstaklega þægilegt þegar við ætlum okkur á slóðir sem við höfum ekki farið á áður (fjall eða gönguleið) og eykur öryggi okkar til muna þar sem við getum séð fyrirfram hvernig annað göngufólk hagaði leiðarvali sínu. Ef við eltum feril annarra mun tækið sýna okkur bæði þann feril (fyrirfram hlaðið inn) og núverandi feril okkar svo öll frávik verða samstundis augljós.
Við mælum með að fólk prófi að ganga bæði eftir ferlum og leiðum til að átta sig á muninum. Umræða um kosti og galla hvorrar nálgunar verður alltaf persónubundin, en gott er að hafa t.d. eftirfarandi í huga meðan fólk myndar sér skoðun:
- Fyrirframgefnir ferlar eru mjög sjónrænir og þægilegir í notkun þar sem við eltum einfaldlega línu og sjáum strax ef við erum ekki þar sem við viljum vera. Einn ókostur ferla er að við sjáum ekki hvað er langt í áfangastað í vegalengd eða tíma.
- Leiðir sýna okkur upplýsingar um vegalengd í áfangastað ef við göngum eftir áttavitanum. Gallinn er hinsvegar að við fáum aðeins upplýsingar um einn staðarpunkt í einu.
- Ef við göngum eftir leið í slæmu skyggni getur nákvæmt leiðarval verið óljóst, sérstaklega ef punktarnir eru ekki nægilega þéttir. Við gætum t.d. komið að hlíð í þoku þar sem til greina kemur að fara öðru hvoru megin við, eða jafnvel yfir. Áttavitinn okkar segir okkur að fara beint, en hvað tekur við næst? Hvað er hlíðin há? Er jafnvel klöngur ofar í henni? Myndum við þurfa að fara niður hinumegin stax aftur?
- Það getur skapað vandamál ef við missum af staðarpunkti meðan við göngum eftir leið (ef punktur er t.d. ónákvæmt staðsettur eða styrkleiki gervihnattasambandsins dettur niður). Mörg tæki leiðrétta þetta sjálf með þvi að nema næsta punkt þegar við göngum í áttina að honum en önnur krefjast þess að við handveljum hann.
Þá höfum við lokið skyndinámskeiði í ferlum, staðarpunktum og leiðum! Kíkjum því næst á nokkra hluti sem líklegt er að notendur spyrji sig í fyrstu göngunum:
Ferlar og “Current Track”:
Meðan tækið er í gangi skráir það stanslaust ferilpunkta í bakgrunninum, sama hvað við erum að gera. Þessar upplýsingar eru geymdar í skrá sem kallast “Current Track”. Við ræsingu mun tækið byrja á að kanna hvort einhver ferilpunktur sé til staðar í “Current Track” frá fyrri göngu. Ef við hreinsuðum ekki “Current Track” í millitíðinni, annað hvort með því að eyða eða vista upplýsingarnar, mun tækið tengja síðasta ferilpunkt við núverandi staðsetningu okkar með beinni loftlínu.
Þetta getur verið ruglandi þegar við skoðum kortið í tækinu. Góð regla er því að hreinsa “Current Track” rétt áður en maður tekur fyrstu skrefin í nýrri göngu. Þá geymir tækið aðeins ferilpunkta sem eiga við núverandi ferð okkar. Þegar göngu er lokið er gott að opna “Current Track” og vista leiðina strax. Það einfaldar okkur úrvinnslu gagnanna ef við viljum t.d. gera ferilinn okkar kláran fyrir vefsíður á borð við Wikiloc eða Gaia GPS svo aðrir geti hlaðið honum niður og fylgt síðar.
Hvað gerist ef tæki verður rafmagnslaust í göngu?
Ef við slökkum á tæki eða það verður rafmagnslaust, hættir það skrá ferilpunkta. Það er því mikilvægt að kíkja reglulega á tækið ef grunur er um að við séum að nálgast þolmörkin og skipta um rafhlöður áður en tækið slekkur á sér. Ef við lendum í slíku mun tækið haga sér eins og lýst er að ofan þegar við kveikjum á því aftur; það mun tengja síðasta ferilpunkt (þar sem það slökkti á sér) við núverandi ferilpunkt (þar sem við erum stödd þegar við endurræsum) með beinni loftlínu. Sú lína endurspeglar augljóslega sjaldnast leiðina sem við gengum.
Þetta skemmir ferilinn okkar en ef við áttuðum okkur nokkuð fljótt og gátum endurræst tækið innan skamms tíma, má oftast laga hann til í úrvinnsluforritum eftir að heim er komið (ef markmiðið er að geyma hann eða deila með öðrum). Flest forrit bjóða t.d. upp á möguleikann að handteikna ferilinn þar sem upplýsingar vantaði.
Við mælum eindregið með því að allir temji sér að líta reglulega á tækin sín, þó ekki sé nema til að kanna stöðuna á rafhlöðunum og að allt sé eins og það á að vera. Eins er gagnlegt að stilla skjáinn strax á rafhlöðusparnað og aðlaga baklýsingu eftir þörfum.
Síðast en ekki síst minnum við á að símar geta fræðilega séð haft áhrif á GPS tæki og því er góð regla að halda þeim aðskildum; ekki hafa síma og GPS tæki í sama vasa, né í sama vasa á mismunandi fatalögum. Sími í hægri framvasa á millilagi er of nálægt GPS tæki sem er í hægri framvasa á ysta lagi!
Varðandi ferla og fjarlægðir
Það kemur sumum á óvart en GPS tæki til göngu eru í raun ekki hönnuð til þess að halda nákvæmlega utan um fjarlægðir. Hlutverk GPS tækja til útivistar er í fyrsta, öðru og þriðja lagi að gera útivistina öruggari. Tækin gera okkur kleift að búa til og elta ferla og leiðir auk þess að merkja og finna staðarpunkta. Hlutverk þeirra er ekki að segja okkur hvort við gengum 15,5km eða 15,7km.
Þessi staðreynd sést best þegar við skoðum skrárnar okkar í tölvu. Skrár fyrir GPS tæki eru á .gpx formi en slíkar skrár innihalda eingöngu upplýsingar um ferla, leiðir og staðarpunkta. Upplýsingarnar sem tækið skráir fyrir hvern punkt eru tími og hnit en ekki fjarlægðir. Það er því engin ein “rétt” vegalengd sem brennist í ferilinn okkar og fylgir með á .gpx formi þegar við flytjum skrána yfir í tölvu.
Dæmi: Segjum að við höfum skellt okkur í góða göngu. Við vorum dugleg og GPS tækið okkar sýndi 14,1km þegar göngu lauk. Við fórum heim, hlóðum ferlinum inn í tölvuna og í Garmin BaseCamp. Þar var hann skyndilega orðinn 13,5km. Okkur fannst við svikin svo við hlóðum ferlinum í annað forrit og auk þess á þrjár vefsíður, en fengum út fjórar nýjar tölur – allar lægri en upphaflegu 14,1km sem við töldum okkur hafa farið. Lægsta talan var virkilega móðgandi eða aðeins 12,7km.
Hvert fóru metrarnir okkar?
Þar sem .gpx skrárnar innihalda ekki upplýsingar um vegalengd þarf hvert forrit eða vefsíða sem les ferilinn okkar að nota einhverkonar nálgunarútreikninga. Slíkir útreikningar ganga í megindráttum út á að lágmarka skekkjur sem verða til í ferlinum þegar við erum kyrrstæð eða ferðumst hægt á sama svæði. Ágætt dæmi um þetta eru nesispásur. Tækið heldur áfram að skrá punkta þó við séum ekki á hreyfingu (“factory” stilling). Hinsvegar er skekkja í hverjum punkti sem getur numið 3-10 metrum í GPS tækjum fyrir útivist (sama gildir um síma, úr, bíltæki o.þ.h.). Skekkjan mun því safnast hratt upp ef við setjumst niður í hálftíma.
Þeir sem hafa skoðað feril í t.d. BaseCamp kannast væntanlega við að sjá stóra “klessu” í ferlinum þar sem pásur voru teknar, jafnvel í fullkominni kyrrstöðu. Þegar við grandskoðum ferilinn í forriti, t.d. BaseCamp, fáum við uppgefna vegalengd á milli ferilpunkta (eða staðarpunkta, eftir því sem við á). Þetta er hinsvegar aðeins nálgun sem byggist á leiðréttingarútreikningum forritanna líkt og heildarvegalengdin.
Forrit og vefsíður nota mismunandi reikniaðferðir við að leiðrétta skekkjuna, sem aftur þýðir að við fáumst nánast aldrei sömu vegalengdina tvisvar. Miðað við sjálfgefnar (“factory”) stillingar tækjanna getum við þó oftast gengið út frá því að tækið sjálft innihaldi allar skekkjurnar og sýni því lengstu vegalengdina við lok göngu.
ATH: Við getum einnig fengið mismunandi vegalendir þegar við göngum sömu leið með sama tæki, ef við breytum því hvenær tækið skráir ferilpunkta (eftir vegalengdinni sem tækið skynjar, eða tíma). Þetta er nokkuð tæknilegt og skiptir í raun takmörkuðu máli fyrir hinn almenna notanda, svo við förum ekki dýpra í það.
Af nördaskap einum gætum við haldið lengi áfram, en eftir því sem við förum dýpra verður efnið tæknilegra. Samhliða því minnkar mikilvægi þess fyrir Jón og Gunnu sem vilja einfaldlega skella sér í göngu og deila henni síðan með vinum sínum. Við stoppum því hér í bili!
Við vonum að þessir fáu punktar spari ykkur tíma þegar kemur að því að læra á ykkar eigið tæki. Förum út, æfum okkur, skráum göngurnar okkar, deilum þeim með öðrum, verum forvitin um nýjar gönguleiðir en umfram allt:
Förum varlega og munum að treysta engum tækjum í blindi eða elta slóða í ógöngur!