Press "Enter" to skip to content

Leggjabrjótur

Á næstu dögum ætlum við að birta þrjár skemmtilegar, A-til-B göngur sem henta flestum. Hér kemur sú fyrsta, Leggjabrjótur.

Leiðin yfir Leggjabrjót var mikið farin hér áður fyrr og er ein fjölda þjóðleiða í nágrenni höfuðborgarinnar. Menn ríðu milli sveita um skarðið sem skilur Botnssúlurnar frá Búrfelli á Þingvöllum, yfir í Hvalfjörð eða í hina áttina, á Þingvelli. Í dag hefur leiðin öðlast nýtt hlutverk þó og er mikið farin af útivistar- og göngufólki.

Upphafið

Áður en lengra er haldið vert að nefna það að við mælum með að ganga þessa leið frá Svartagili á Þingvöllum, yfir í Botn Hvalfjarðar. Að okkar mati er leiðin fallegri þegar komið er ofan í Hvalfjörð heldur en í hina áttina…en misjafn er smekkur manna.

Við hefjum gönguna í Svartagili á Þingvöllum, góður vegur liggur alla leið að upphafsstað göngu og fær öllum bílum. Leiðin tekur á móti okkur með myndarlegum brekkum og við tökum út góða hækkun strax í byrjun. Hér er vert að stoppa reglulega og líta aftur fyrir sig, yfir Þingvallavatnið og alla leið á Nesjavelli. Útsýnið verður fallegra og fallegra þeim ofar sem komið er.

Syðstasúla

Gengið er eftir gömlum vegi og stíg mest alla leið, fylgt vörðum og stikum og leiðin því vel sjáanleg á góðum degi. En þar sem hún liggur um skarð og í hæð er alltaf hætta á þoku eða breytingu á skyggni og þvi mælum við alltaf með gps tæki eða korti og áttavita.

Hækkunin er jöfn á fótin alveg að hæsta punkti. Gengið er meðfram Öxará sem rennur úr Myrkavatni alla leið að hæstu vörðu. Þar er útsýni fallegt yfir Búrfell, Botnssúlurnar og sést glitta í Sandvatn…sem við einmitt stefnum á niður. Gengið er hægra megin við vatnið, á bökkum þess og í átt að Hvalfirði. Hér er gaman að taka nestispásu, með útsýni niður Brynjudal annarsvegar og Botnssúlurnar hins vegar. Frábært staður.

Glymur í fjarska

Nú er ekki eftir neinu að bíða en að koma sér niður í Botnsdal. Eftir nesti er komið inn á slóðan sem liggur upp á Vestursúlu og farið að glitta í botninn sjálfan. Með hverju skrefinu styttist líka í að Glymur fari að sýna sig i fjarska.

Glymsgil

Leiðin niður er þægileg, eftir vel merktum slóða þar sem við endum svo á að fara yfir Botnsá á gamallri járnbrú og höldum á leið á bílastæðið.

Leiðin er 16km löng með um 500m hækkun. Hún tekur að öllu jöfnu 6 klst og er frá A-B og því þarf að huga að bílamálum á upphafs- og lokastað göngu. Hún hentar öllu göngufólki sem treystir sér í lengri túr með fallegu útsýni.

Af stað nú…ekki láta nafnið fæla ykkur frá þessari fegurð!