Á næstu dögum ætlum við að birta þrjár skemmtilegar, A-til-B göngur sem henta flestum. Hér kemur sú fyrsta, Leggjabrjótur.
Leiðin yfir Leggjabrjót var mikið farin hér áður fyrr og er ein fjölda þjóðleiða í nágrenni höfuðborgarinnar. Menn ríðu milli sveita um skarðið sem skilur Botnssúlurnar frá Búrfelli á Þingvöllum, yfir í Hvalfjörð eða í hina áttina, á Þingvelli. Í dag hefur leiðin öðlast nýtt hlutverk þó og er mikið farin af útivistar- og göngufólki.
Áður en lengra er haldið vert að nefna það að við mælum með að ganga þessa leið frá Svartagili á Þingvöllum, yfir í Botn Hvalfjarðar. Að okkar mati er leiðin fallegri þegar komið er ofan í Hvalfjörð heldur en í hina áttina…en misjafn er smekkur manna.
Við hefjum gönguna í Svartagili á Þingvöllum, góður vegur liggur alla leið að upphafsstað göngu og fær öllum bílum. Leiðin tekur á móti okkur með myndarlegum brekkum og við tökum út góða hækkun strax í byrjun. Hér er vert að stoppa reglulega og líta aftur fyrir sig, yfir Þingvallavatnið og alla leið á Nesjavelli. Útsýnið verður fallegra og fallegra þeim ofar sem komið er.
Gengið er eftir gömlum vegi og stíg mest alla leið, fylgt vörðum og stikum og leiðin því vel sjáanleg á góðum degi. En þar sem hún liggur um skarð og í hæð er alltaf hætta á þoku eða breytingu á skyggni og þvi mælum við alltaf með gps tæki eða korti og áttavita.
Hækkunin er jöfn á fótin alveg að hæsta punkti. Gengið er meðfram Öxará sem rennur úr Myrkavatni alla leið að hæstu vörðu. Þar er útsýni fallegt yfir Búrfell, Botnssúlurnar og sést glitta í Sandvatn…sem við einmitt stefnum á niður. Gengið er hægra megin við vatnið, á bökkum þess og í átt að Hvalfirði. Hér er gaman að taka nestispásu, með útsýni niður Brynjudal annarsvegar og Botnssúlurnar hins vegar. Frábært staður.
Nú er ekki eftir neinu að bíða en að koma sér niður í Botnsdal. Eftir nesti er komið inn á slóðan sem liggur upp á Vestursúlu og farið að glitta í botninn sjálfan. Með hverju skrefinu styttist líka í að Glymur fari að sýna sig i fjarska.
Leiðin niður er þægileg, eftir vel merktum slóða þar sem við endum svo á að fara yfir Botnsá á gamallri járnbrú og höldum á leið á bílastæðið.
Leiðin er 16km löng með um 500m hækkun. Hún tekur að öllu jöfnu 6 klst og er frá A-B og því þarf að huga að bílamálum á upphafs- og lokastað göngu. Hún hentar öllu göngufólki sem treystir sér í lengri túr með fallegu útsýni.
Af stað nú…ekki láta nafnið fæla ykkur frá þessari fegurð!