Press "Enter" to skip to content

Nesti á fjöllum

Nesti á fjöllum? Afhverju skiptir það máli? Er nesti ekki bara nesti, næring til að borða eða narta í á meðan maður stoppar? Er þetta virkilega eitthvað sem þarf að pæla í?

Þetta eru allt mjög góðar og sanngjarnar spurningar og eflaust eitthvað sem fer í gegum huga margra þegar þeir undirbúa sig fyrir næstu göngu, næsta verkefni. En eins og með allt annað í pokanum þá þurfa hlutir að ganga upp, þeir þurfa “að meika sens”.

Eftir tíma á göngu, þegar komið er að því að setjast niður og næra sig, á okkur að hlakka til að opna pokan, teygja okkur í nestið og byrja að borða. Þegar svo er njótum við þess enn frekar að vera úti á ferðinni. Þess vegna skiptir það máli að undirbúa nestið vel daginn áður og taka með sér hluti sem manni þykja góðir og girnilegir. Sem dæmi er samloka í hvítu brauði með rækjusalati sem búin er að veltast um í bakpokanum harla girnileg…eða hvað?

Nestið þarf að vera næringaríkt en einnig halda lögun og eiginleikum sínum. Það þarf að líta vel út og bragðast vel þrátt fyrir að vera í bakpokanum í einhvern tíma á ferðinni.

Tölum um lögun : Gróft brauð viðheldur sér mun betur en fínt, það er þétt og mjög næringaríkt og dettur ekki í sundur eða kremst þrátt fyrir langa daga í bakpokanum. Flatkökur eru einnig frábærar, léttar en næringaríkar með þessu góða brennda bragði.

Tölum um næringu : Álegg, álegg, álegg! Þetta er allt í álegginu eins og einhver sagði. Við mælum með góðu kjötáleggi, t.d. hangikjöti, hráskinku, spægipylsu eða öðru þéttu áleggi. Við það má bæta við osti, ekki spara hann þar sem í honum er mjög mikil næring miðað við þyngd og magn. Camembert eða góður áleggs ostur er veislukostur.

Tölum um grænmeti : Ef hafa á grænmeti með þá er enn og aftur mjög mikilvægt að hugsa út í lögun þess eftir smá tíma í bakpokanum. Sem dæmi geta sneiddir tómatar verið slepjulegir á göngu. Við mælum með því að gera ekki að grænmetinu fyrr en á staðnum, þegar komið er að nestinu. Því er best að taka heila tómata með sér eða gúrku og papríku í stærri bitum sem hægt er að sneiða niður á staðnum.

Tölum um snarlið : Þetta er jafn mikilvægt og stóra nestið okkar! Á göngu er annarsvegar stoppað í lengri tíma til að borða aðal nestið og hins vegar til að grípa snarlið sitt og halda svo áfram. Hér er gott að vera með handhæga hluti sem hægt er að fá sér án neinnar fyrirhafnar. Hnetublöndur, orkustykki, harðfiskur eða eplabátar, allt eru þetta góðir hlutir sem hægt er að hafa við höndina til að fylla á orkubirgðirnar á ferðinni. Munið bara að hafa þetta einfalt og þægilegt.

Tölum um drykki : Fyrst og fremst þá telja allir drykkir þegar talað er um lítrafjölda. Hvort sem það er hreint vatn, orkudrykkir eða kaffi á brúsa. Að sjálfsögðu er vatn besti drykkurinn en oft er gott að vera með smá orku með sér líka. Þá koma steinefna og kolvetnadrykkir sterkir inn. Við mælum sérstaklega með því að blanda þá ekki strax út í vatnið því stundum þarf maður ekki á þeim að halda. Kaffi eða te á brúsa er mjög sniðugt, sérstaklega í kuldanum. Munið bara eftir því að vera með léttan brúsa og ekki stærri en þurfa þykir. Passið svo að lokum orkudrykkina sem innihalda mikið magn koffín eða annara efna, þau geta stundum haft neikvæð áhrif á meltinguna.

 

Við vonum að þessir punktar nýtast ykkur í komandi ævintýrum og að nestið verði það sem allir hlakka til að njóta.
Af stað nú…allir að smyrja!

 

Comments are closed.