Press "Enter" to skip to content

Keilir

Keilir, þetta fallega keilulaga fjall sem margir hafa séð á ferð sinni um Reykjanesbrautina, er viðfangsefnið okkar í dag. Úr fjarska virðist það standa eitt og sér og það fer ekki mikið fyrir því. En þegar maður nálgast fjallið sjálft sýnir það sitt rétta andlit.

Keilir (379m) er fallegt móbergsfjall sem tilheyrir Reykjanesinu, það er tignarlegt úr fjarska með fallegu og miklu útsýni til allra átta af toppnum.

Gangan að fjallinu er tiltölulega löng og tekur um 45mín hvora leið. Gengið er þá í gegnum hraun sem hefur runnið í gegn fyrr á öldum. Göngustígurinn er góður og leiðin er vörðuð alla leið að fjallinu. Þó skal gæta þegar stigið er í hraunið því á sumum stöðum getur það verið laust undir.

Þegar komið er að fjallinu er gott að fækka fötum ef veður leyfir, henda sér úr jakkanum t.d. því nú hefst uppgangan sjálf og manni hitnar við hana. Hún er ekki löng en er brött og því mikilvægt að fara varlega og passa sig á hugsanlegu hruni. Maður gengur fyrst þægilegan stíg, upp að grjóti sem þarf að spóka sig í gegnum og svo upp að lokabrekkunni sem er mest megnið sandur. Eftir þessa þrjá áfanga blasir toppurinn við, með gestabók og fallegri útsýnisskífu.

Á góðum degi er hægt að sjá ansi langt, yfir allt Reykjanesið, Krýsuvík, Snæfellsnes og auðvitað höfuðborgarsvæðið sjálft. Það er því alveg þess virði að skjótast þangað upp.

Leiðin niður er síðan sú sama og upp, munið bara að stíga vel í hælana til að renna sem minnst til í sandinum.

 

Af stað nú…allir upp á Keili!

Comments are closed.