Fellið með mörgu nöfnin, Grímmannsfell – Grímansfell – Grimmansfell, eins og það er þekkt líka, setur svip sinn á Mosfellsheiðina og liggur fyrir ofan Gljúfrastein. Við keyrum að öllu jöfnu fram hjá því á leið okkar á Þingvelli. Kíkjum að þessu sinni aðeins betur á það.
Gangan á Grímmannsfell hefst að öllu jöfnu á bílastæðinu við Gránsteina, þar er upplýsingaskilti sem beinir manni á rétta braut. Einnig er hægt að hefja gönguna við Gljúfrastein og er þá farin önnur leið að fjallinu. Gangan á fjallinu sjálfu er svo sú sama hvora leið sem maður velur. Að fjallinu þarf að labba yfir tún og móa og hoppa yfir einn skurð, fylgja ávalt stikum og hækka sig hægt og bítandi.
Þegar komið er að fjallinu sjálfu tekur brött brekka við, hún er stutt en brött á fótinn og maður hækkar sig ansi hratt upp að fyrstu vörðu. Útsýnið þaðan er alveg þess virði!
Þegar hingað er komið er mesta hækkun búin og framundan þægileg ganga á nokkuð slettu landslagi. Fylgt er stikum alla leið, yfir Flatafell og svo upp á Stórhól þar sem tindurinn sjálfur er.
Héðan er ansi glæsilegt útsýni til allra átta. Hellisheiðin, Mosfellsheiðin, Esjan og höfuðborgarsvæðið í heild sinni blasir við manni. Verðlaunin eru því þess virði.
Hægt er að velja um tvær leiðir til baka, annað hvort sömu leið eins og farið var upp eða ganga hring efst yfir Katlagil. Sú leið lengir gönguna smá en er þess virði þar sem útsýnið heldur áfram og maður öðlast nýja sýn á Mosfellsdalinn. Ef þessi hringur er farinn er leiðin um 10 km löng og tekur um 2,5 klst að ganga. Þetta er því skemmtileg ganga hvort sem er eftir vinnu á virkum degi eða um helgi.
Af stað nú…allir á Grímmannsfell!