Það er ekki furða að maður spyrji sig þessa spurningu enda um lítið og sjálfsagt fyrirbæri að ræða. Húfan, þessi litla flík sem allar mæður hafa tönglast á að maður gangi með þegar fer að kólna. En er tilgangur með húfu, annar en að skreyta höfuðið sitt eða passa hárgreiðsluna í vindi?
Skv. breskum rannsóknum telja menn að hitatapið í gegnum höfuðið sé í kringum 10%. Það er ekki svo há tala ef á heildina er litið og áður fyrr töldu menn þessa tölu vera í kringum 40%. Það mætti því halda að húfur skipta ekki svo miklu máli. En þar sem þið eruð að lesa þessa færslu þá er nokkuð ljóst að svarið er ekki svo einfalt.
Í höfðinu eru ótalmargar æðar og liggja þær mjög grunnt undir húðinni. Þegar blóðið streymir um þessar æðar fer það upp og aftur niður í líkamann og um hann. Á köldum degi fer það því um heitan líkamann, upp í höfuðið þar sem það kólnar og heldur svo áfram að streyma niður í líkamann. Þegar þangað er komið er það orðið kaldara og kælir þannig líkamann í heild sinni, líkamshitinn okkar tekur breytingum. Einfalt er það ekki? Það er því eitt að við töpum hita í gegnum höfuðið en svo allt annað að það kælir líkamann okkar. Eina ráðið við þessu er jú að vera með húfu.
Úrvalið er gríðarlega mikið og eru öll útivistarmerki með sínar útgáfur. Hvort sem um þykkar eða þunnar er að ræða, úr ull eða flís, það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og sem henta hverju tilfelli fyrir sig. Okkar uppáhalds húfa er einföld í sniðum, blanda af ull og acryl og helst með auka efni yfir eyrun sem veitir skjól, t.d. windstopper. Það hentar best í almennri útivist. Í útihlaupum eða hjólreiðum er svo betra að vera með eitthvað létt og þunnt, t.d. flís- eða merino ullarhúfu. Best er að prófa og máta, hvað hentar manni best.
Af stað nú…allir að finna sér húfu(r)!