Við eða í Heiðmörk liggur falin perla sem gaman er að heimsækja, gangandi, hlaupandi, hjólandi, það er allt hægt í Búrfellsgjá. Þetta er skemmtileg og auðveld ganga og oft góð sem fyrsta ganga fyrir alla fjölskylduna óháð aldri.
Búrfellsgjá er eins og heitið gefur til kynna, gjá sem gengin er endilöng. Við enda hennar er svo gamall gígur, eldstöð, um 180m hár. Hægt er að ganga eftir hliðum gígsins, hringinn um hann og skoða. En að upphafinu…
Gangan hefst frá nýju og glæsilegu bílastæði við annan enda Heiðmerkur, Hafnafjarðarmegin. Þar er skilti sem bendir manni leiðina, hversu löng hún er og hvað er hægt að sjá á henni. Göngustigurinn er nýr og endurbættur og því mjög þægilegur á fótinn, hvort sem maður velji að ganga eða hlaupa hann.
Leiðin öll er mjög þægileg, lítil hækkun og í flestum tilfellum mjög skjólgóð þar sem gengið er á milli hraunveggja og í gömlum farvegi þar sem hraunið rann um tíma. Gengið er fram hjá litlum hellum sem gaman er að skoða, flestir eru þeir merktir með nafni.
Þegar komið er að gígnum sjálfum hefst smá brekka sem allir ráða vel við, hún er stutt og gengur beint á toppinn. Frá honum er fallegt útsýni til allra átta. Helgafellið, Bláfjöllin, Vífilsfell, höfuðborgarsvæðið o.fl. Á góðum degi klikkar þetta útsýni ekki.
Leiðin til baka er sú sama og því hægt að skoða sömu staðina frá öðru sjónarhorni. Þó mælum við alltaf með að ganga á toppi gígsins, hringinn. Það gefur allt aðra sýn á hvernig hann varð til og hægt er að skoða berglögin sjálf betur. Alveg geggjað.
Af stað nú…allir á Búrfellsgjá!