Press "Enter" to skip to content

Hinar fullkomnu buxur fyrir komandi vetrargöngur eru…

…til! Eða svona…við getum leitt ykkur í átt að þeim einu réttu…

Eftir frábærar viðtökur á færslunni okkar um hinn fullkomna jakka í vetrargöngurnar er upplagt að ræða um buxur. Að þessu sinni er viðfangsefnið einfaldara að okkar mati, þó við ætlum ekki að mæla með einu eða öðru merki sérstaklega þá mælum við með einni tegund efnis…og það er töfraefnið softshell! Endilega kíkið á þessa færslu okkar um softshell áður en haldið er áfram með lesninguna, hún mun útskýra ansi margt.

En hvað er svona sérstakt við softshell buxur og afhverju mælum við með þeim? Svarið er í raun og veru einfalt, þetta eru 90% buxur og nýtast því svo rosalega vel. Einnig að vetri til.

Buxur úr softshell efni eru hlýjar, þær hafa einangrun úr flís eða nylon sem heldur á okkur hita,  Að vetri til er þó alveg upplagt að klæða sig í föðurland undir og ná þannig fram enn meiri hita. Softshell efnið andar líka vel og hrindir raka frá líkamanum, það er því minni hætta á að maður svitni mikið í átökum og kólni síðan í stoppum. Að lokum hrindir softshell frá sér bleytu og heldur vindi úti, þessi blanda hentar ansi vel á Íslandi þar sem veðrið er svo rosalega breytilegt. Athugið þó að efnið er ekki 100% vatnshelt og því alltaf gott að vera með skel við hönd þegar á henni þarf að halda.

Softshell buxur fá því okkar fullu meðmæli fyrir veturinn, þær nýtast vel í komandi fjallgöngum, hvort sem er í lengri ferðum um hálendið eða styttri ferðum á Esjuna. Hægt er að finna softshell buxur í flestum útivistarverslunum og ættu því allir að geta fundið réttu buxurnar hjá sínu uppáhalds merki.

 

Af stað nú…allir að skoða softshell buxur!