Nú þegar jöklaferðirnar eru í fullu fjöri kemur þessi spurning oft upp, þarf ég jöklagleraugu og ef svo er, hvað þarf ég að hafa í huga við val á þeim. Skoðum þetta betur.
Til hvers þarf maður sólgleraugu á jökli? Svarið er einfalt, til að forða augun frá beinu sólarljósi og endurkasti af jöklinum/snjónum. Málið er ekki mikið flóknara en það. Augun verða fyrir mjög sterku ljósi þarna uppi, þau þreytast, þorna og geta jafnvel orðið fyrir snjóblindu ef ekki er vel hugað að þeim. Og hér koma góð gleraugu til sögunnar.
Góð sólgleraugu (ekki bensínstöðva gleraugu) taka út mestu birtuna, dempa hana niður og hjálpa okkur í sólinni. Þau eru með góðri speglun og duga okkur vel í flest öllu því sem gert er dagsdaglega þegar sólarljósið kemur beint á okkur eða niður á andlitið. En upp á jöklum er sagan önnur. Þar kemur ljós og endurskin úr öllum áttum, beint á andlit, að ofan og svo að neðan af hvíta snjónum. Það endurkast er eitt það hættulegasta þar sem við gerum okkur ekki strax grein fyrir því. Sem dæmi, þegar þoka kemur yfir jökul er ennþá endurkast af birtu í gangi sem getur þreytt augun. Hér er hægt að vinna með hlutina, nota t.d. buff sem skjól á hliðum og loka þannig fyrir allar leiðir fyrir sólinni. Auka buff þýðir þó auka hiti á höfði.
Jöklagleraugu liggja þétt upp við andlitið okkar, þau verja því frá endurkasti úr öllum áttum. Mörg þeirra eru líka með litlum loftgötum þannig að móða safnast ekki á þau. Speglunin á þeim er í hærri flokki en á venjulegum gleraugum og því henta þau betur í þessar tegundir ferða.
Hins vegar!
Jöklagleraugu geta verið ansi ljót! Það er eitthvað við það að gleraugnaframleiðendur prófa nýja hluti í hönnun þegar kemur að þessari týpu af útivistargleraugum. Mörg hver láta okkur líta út eins og Robocop sé mættur á fjallið og tilbúinn að eyða því!
Okkar ráð er því einfalt. Ef venjuleg sólgleraugu duga ykkur ekki í þeim verkefnum sem framundan eru, veljið þá jökla- eða íþróttagleraugu sem eru töff, sem þið sjáið fyrir ykkur að nota áfram, ekki bara í þessari einu ferð sem stefnt er á, þessum eina jökli sem skal toppa. Því annars er þetta peningur sem nýttur verður í einni ferð og geymist síðan ofan í skúffu eða skáp…við hliðin á fótanuddtækinu og bumbubananum.