Ofan við Mosfellsbæ leynist stutt og skemmtileg gönguleið sem hentar frábærlega sem fjölskylduganga (t.d. fyrir eða eftir sunnudagsheimsóknina í bakaríið!) eða góðviðrisrölt eftir vinnu. Breyttu út af vananum og kíktu á Æsustaðafjall og Reykjafell!
Við keyrum upp í Mosfellsdal og beygjum til hægri inn á afleggjarann að Hlaðgerðarkoti. Fljótlega beygjum við aftur til hægri inn að smáhýsabyggðinni í Skammadal og ökum þangað til við komum að litlu bílastæði rétt við byggðina. Upphaf leiðarinnar er merkt með stikum.
Við byrjum á að heimsækja Æsustaðafjall og eltum til þess stikurnar og vegslóða upp eftir hryggnum fyrir framan okkur. Gangan á Æsustaðafjall er stutt enda “fjallið” aðeins 220m hátt og hækkunin okkar enn minni. Þegar við nálgumst toppinn er svo hægt er að rökræða við göngufélagana um hvenær hæsta punkti er náð þar sem nokkrir aðskildir hólar hafa ýmist vörður, stöpla eða annarskonar merki sem maður sér vanalega aðeins á toppum.
Vegslóðinn upp Æsustaðafjall. Síðasti spölurinn.
Er þetta toppurinn.. ..eða þetta?
Frá Æsustaðafjalli sjáum við yfir á topp Reykjafells sem er beint sunnan við okkur. Hægt er að halda áfram að elta veginn sem mun skila okkur yfir að Reykjafelli, en skemmtilegra er að rölta stystu leið til að fá sem best útsýni í vestur. Við tökum því stefnuna á greinilega vörðu á milli fellanna, hluti leiðarinnar hefur þjappast niður og er orðinn að ágætum slóða en aðrir partar á þessum stutta kafla geta verið blautir.
Þegar við komum yfir að Reykjafelli dettum við inn á vegslóðann aftur. Þar þarf að fara yfir girðingu (einn gaddavír) en síðan tekur við brattasta brekka leiðarinnar þar sem við eltum slóðann upp. Við beygjum svo í vestur af vegslóðanum og höldum áfram eftir melunum þar til við sjáum glitta í vörðuna og staurana sem marka hæsta punkt fellsins.
Uppganga á Reykjafell beint af augum. Passa buxurnar!
Mesta hækkunin að baki og melarnir framundan. Glittir í vörðuna og hin toppamerkin.
Frá fellinu er gott útsýni til allra átta, gaman er að horfa t.d. yfir Reykjaborg (280m) ofan við Mosfellsbæ, Hafrafell (245m) ofan Hafravatns blasir við auk Stórhóls á Grímmannsfelli (482m) og Hjálms (454m) litlu sunnar.
Nóg af merkjum á toppnum! Þar sem stígurinn beygir í átt að smáhýsunum.
Við höldum svo niður greinilegan göngustíg frá toppnum til vesturs. Fyrir miðri hlíð beygjum við til hægri þar sem stígurinn klofnar greinilega og leiðir niður í átt að smáhýsabyggðinni. Við komuna niður af fellinu dettum við aftur á vegslóðann, en best er að elta hann til hægri í smávægilegan krók austur fyrir byggðina. Þar förum við í gegnum eitt hlið á veginum. Á milli húsanna er svo stigi yfir grindverkið sem leyfir okkur að komast stystu leið á bílastæðið aftur.
Litið til baka. Niðurleiðin er fyrir miðri mynd. Stiginn yfir á veginn að bílastæðinu.
Æsustaðafjall & Reykjafell hringleið:
Mesta hæð : 269m
Lengd : 4,79km
Heildarhækkun: 245m
Tími: 1 – 1,5klst.
HÉR er hægt að nálgast GPS-feril af leiðinni.