Þetta er gild spurning, eða hugleiðing, og ein sem maður hefur rekist á af og til hjá göngufólki. Upphaflega heyrði maður þetta tengt háu fjöllunum, t.d. Hvannadalshnúk, þegar vant göngufólk segist ekki hafa áhuga á því að ganga á Hnúkinn, hann bara kallar ekki á það. Þetta er skrítið…eða er það?
Við eigum það til að setja allar fjallgöngur undir sama hatt, fjall er fjall og upp skal maður! Til hvers að fara í fjallgöngu ef maður er ekki á leiðinni upp, á topp, og heim aftur…hver er þá tilgangurinn?
Sumir horfa akkúrat þannig á fjallgöngur, sem topp sem þarf að ná og komast svo niður aftur. En aðrir horfa til fjalla og sjá fyrir sér heiðar og flatlendi, firði og víkur, sem gengnar eru sér til ánægju, án þess að ganga bratt upp á skilgreinda toppa. Gerir það útivistina minni eða lítt merkilega? Við vitum öll svarið við þessu…alls ekki! Það sem skiptir máli er að hver og einn finni sinn tilgang með því að fara út, anda að sér fersku lofti, skapa minningar og njóta. Ef fjallið heillar, hendumst upp á það. Ef heiðin lítur vel út, göngum hana.
Á þessu Covid ári hefur útivistin slegið rækilega í gegn, tindar eins og Hvannadalshnúkur heilluðu marga í vor og þar var stannslaus umferð fram eftir vori. Tindurinn kallaði og við svöruðum því kalli…enda allir orðnir leiðir á því að hanga heima í ástandinu. Nú þegar sólin er hvað hæst á lofti og hiti örlítið hærri en vanalega kalla heiðarnar og lengri göngur á okkur. Fimmvörðuháls, Laugavegurinn, Víknaslóðir, Leggjabrjótur, o.fl. o.fl. Allt eru þetta þægilegar leiðir, með temmilegri hækkun en þó ekki beint “tindi” sem þarf að klífa. En heillandi eru þó leiðarnar og gefa fjöllunum ekkert eftir!
Þið finnið hér leiðarlýsingar fyrir nokkrar skemmtilegar A-til-B göngur:
– Leggjabrjótur
– Síldarmannagötur
– Kattartjarnaleið
Af stað nú…finnum okkar í útivistinni, á okkar forsendum!