Þá er komið að síðasta hluta þessarar seríu okkar um haustútilegur. Fyrri færslur má finna hér og hér. Í dag ætlum við að ræða það heilaga, það sem hlýjar manni og allir eru spenntastir fyrir…matnum! Hvað er gott að hafa í huga þegar kemur að matarmálum og búnaði tengdum þeim.
Þegar kemur að útiveru, útilegum eða lengri göngum, þá er nestið eitt það mikilvægasta sem til er…það er bara fátt betra en að borða úti eftir líkamleg átök, vera þreyttur og hlakka til að fá sér nestið sitt. Þetta á svo sannarlega við í útilegum þar sem matarmálin eru stór partur þeirra. Ef tekin var ákvörðun um að ganga lengri spöl á tjaldstað þá gerum við ráð fyrir því að allir séu með nesti eða eitthvað til að snarla á á meðan á göngu stendur. Svo kemur maður á staðinn, setur upp tjaldið og gerir allt klárt. Þá er kominn matur…og hvað nú?
Matarmál eru mjög persónubundin og hver og einn hefur sinn smekk. Okkar smekkur hérna á vefnum er einfaldur, heit máltíð er lykillinn! Það er svo gott að fá sér heita máltíð sem vinnur bæði á svengdinni en líka á hrollinum sem fylgir því að setjast niður eftir góða göngu. Eitthvað sem er næringaríkt og gott og okkur hlakkar til að borða. Og til að galdra þetta fram þurfum við eld, auðveldasta lausnin er prímus og gas!
Ok ok, ég veit…við viljum öll vera eins og Tom Hanks í Cast Away, kveikja varðeld og elda eitthvað gúrmei á honum. En í sannleika sagt er þetta ekki eins auðvelt, hvað þá praktískt. Hérna er því flott að segja stopp, við skulum eiga þetta inni fyrir sumarið og þegar útilegurnar okkar eru orðnar fullkomnar.
Aftur að prímusnum. Þessi litlu tæki eru kraftmikil og taka stutta stund að ná upp miklum hita og sjóða vatn eða notast við í aðra eldamennsku. Gasið sem notað er með þeim kemur síðan í mismunandi stærðum af kútum og fyrir gönguferðir með allt á bakinu mælum við með þeim smæstu, 110gr. Lítill kútur eins og það dugar til þess að sjóða vatn í ca 9-11 skipti. Það er ansi góð nýting miðað við stærð og þyngd og mun einn svona kútur duga manni yfir heila helgi á ferðalagi.
Og þá að matnum þar sem prímusinn okkar er klár. Maturinn þarf ekki að vera flókinn, marg rétta eða gerður á staðnum frá grunni. Hann ætti að vera einfaldur, góður og næringaríkur og hér er gott að prófa sig áfram. Pasta er t.d. mjög vinsælt, einfalt í eldun og alltaf gott á bragðið. Leynitrikkið er að koma með forsteikt beikon með sér að heiman og setja út í þegar allt er klárt…yumm! Hægt er að vera með frostþurrkaðar máltíðir með sér sem krefjast aðeins þess að þú hitir vatn. Þær eru misjafnar eins og þær eru margar og því gott að prófa sig áfram. Við getum mælt með Real Turmat sem fæst í flestum útivistarbúðum. Frábært á bragðið, létt og fyrirferðalítið í bakpokann ásamt því að vera mjög einfalt í “eldun”. Maður bætir heitu vatni í pokann og bíður síðan í 9 mínútur. Gæti ekki verið einfaldara! Blanda af núðlum og bollasúpu er algjör snilld, lítil fyrirhöfn fyrir bragðgóðan mat. Eins og lesa má mælum við með því að ferðast létt en samt með bragðgóðan mat með sér. Ef menn eru tilbúnir í aðeins meiri þyngd í bakpokann þá er hægt að taka með sér mat sem var fyrirfram gerður heima og er þá einungis hitaður á staðnum. Kjúklingur með hrísgrjónum er æði og frábær næring. Nestisboxið er kannski í þyngri kantinum á leiðinni á tjaldstað en mun léttara á leiðinni heim!
Ekki gleyma svo kvöld bollanum, te eða heitt súkkulaði. Rosa gott svona rétt fyrir svefninn eða yfir hljóðbókinni sem maður hlustar á í tjaldinu á meðan maður meltir matinn…og sofnar síðan…
Það er kominn tími til að vakna, nýr dagur er mættur. Og það fyrsta sem við hugum að, áður en gengið er frá tjaldinu og búnaðinum, er morgunmatur og morgunkaffið (fyrir þá sem drekka þannig). Morgunmaturinn ætti að vera næringaríkur og standa vel með okkur í átökum dagsins, hvort sem það er að ganga aftur að bílnum eða halda áfram á tveimur jafnfljótum. Hinn klassíski og staðgóði morgunmatur er hafragrautur. Hann er einfaldur, þarfnast aðeins vatns og það hægt að borða hann heitan eða kaldan. Best er að undirbúa hafrana áður en maður leggur af stað, blanda þeim saman við hnetur og fræ og skammta strax í poka þannig að einn poki er einn morgunmatur. Það auðveldar allt þegar komið er á tjaldstað og tryggir að maður hafi nóg af höfrum fyrir alla dagana sé maður á lengri ferð. Einfaldari morgunmat er varla hægt að fá – hella höfrunum í skál og bæta vatni við. Njóta!
Fyrir þá sem eru ekki mikið fyrir hafragraut mælum við með öðrum kostum t.d. þéttu og grófu brauði með áleggi eða hrökkkexi. En auðvitað er þetta bundið við smekki hvers og eins . Við þekkjum okkur best. Það sem mestu máli skiptir er að við fáum okkur eitthvað að snæða áður en lagt er af stað í komandi átök þar sem þau munu krefjast orku. Að ganga á tómum maga getur verið varasamt þar sem orkan er fljót að hverfa.
Ekki gleyma svo morgunkaffinu, það bragðast extra vel þegar maður situr inni í tjaldinu og ennþá í svefnpokanum!
Eins og sjá má eru þetta mjög einfaldar hugmyndir að morgunmat og miðast þær aðallega við þrjá þætti; að maturinn sé næringaríkur, skilji sem minnstu umbúðir og drasl eftir sig og að lokum, að geti verið útbúninn inn í fortjaldinu, sama hvernig veðrið er. Það skiptir miklu máli þegar gengið er með allt á bakinu að allt plássið sé nýtt sem best og hvert einasta gramm er skoðað til hlýtar. Skyrdolla gæti því verið slæm hugmynd þar sem þyngdin er töluverð miðað við magn og við þurfum síðan að ganga með sömu umbúðirnar aftur heim. Einnig skiptir það miklu máli að geta útbúið morgunmatinn inn í fortjaldinu því ef veður er vont úti þurfum við samt að borða. Að steikja sér egg og beikon á ferðapönnu er því ekki eins góða hugmynd þegar tjaldið fer að fyllast af reyk og steikingarlykt. Geymum það þangað til að heim er komið.
Það hefur verið sagt áður hér að ofan, höldum hlutunum einföldum en góðum, höfum matinn næringaríkan en léttan og njótum hans. Að borða góðann kvöldmat eftir göngu sitjandi inn í tjaldinu er yndisleg tilfinning sem allir ættu að upplifa. Að vakna síðan við vindinn úti eða rigninguna falla á tjaldið og fá sér heitan hafragraut og kaffibolla er ennþá betra og frábær byrjun á nýjum ævintýradegi!
Þetta er síðasti hlutinn okkar í þessari yfirferð yfir haustútilegur, hina má finna hér (1. hluti) og hér (2. hluti). Njótið vel.