Það er korter í jól og ég hef ekki hugmynd hvað skal gefa! Hver hefur ekki lent í þessu…að ofanda, stressast upp og hafa ekki hugmynd hvað skal gefa þeim útivistargarpa eða gyðju sem á allt og vantar ekkert.
Þá er bara eitt eftir, gefðu upplifun!
Um þessar mundir blómstra félög og fyrirtæki sem bjóða upp á kennslu, námskeið og upplifun í útivistinni. Hvort sem maður vill komast í skemmtilegan gönguhóp eða læra fyrstu tökin á skíðum, úrvalið er magnað!
p.s. lítið gjafakort á námskeið er frábær viðbót við útivistargræjurnar sem nú þegar eru komnar í pakkan…
Hérna eru nokkrar hugmyndir – við mælum með þeim!
Fjallaskíðun.is býður upp á námskeið, hópa og kennslu í íþróttinni sem fer hratt vaxandi hér á landi. Ef þig langar að prófa fjallaskíði en veist ekki hvar skal byrja þá er þetta vettvangurinn fyrir þig.
Fjallafélagið er skemmtilegt samfélag! Þar er boðið upp á hin ýmsu göngu og skíðanámskeið og við mælum sérstaklega með gönguskíðanámskeiðunum þar sem farið er vítt og breitt yfir þetta skemmtilega sport.
Ferðafélag Íslands hefur boðið upp á mikið úrval göngu- og útivistarnámskeiða í gegnum árin og mun 2021 ekkert gefa eftir. Úrvalið er gríðarlega mikið og hægt er að finna eitthvað fyrir alla, hvort sem maður er að stíga sín fyrstu skref eða er lengra kominn, ungur sem heldri, vill halda hóp í nokkra mánuði eða yfir heilt ár….það er allt til!
Þetta eru nokkur dæmi um þá skemmtilegu upplifun sem í boði er á næsta ári fyrir þá ævintýraþyrstu!