Það er rok úti, snjókoma og lítið skyggni. Maður hylur allt andlitið nema augun, þau þurfum við víst að nota áfram. Nú fýkur allt framan í mann og erfitt að sjá hvert skal halda – og akkúrat þá koma skíðagleraugun til sögunnar!
Skíðagleraugu eru ekki aðeins notuð við skíðaiðkunn heldur koma þau sér vel á fjöllum líka. Þegar farið er að blása og erfitt að halda augunum opnum er gott að hylja þau með einhverju sem lokar vel að og hlífir frá veðrinu. Þó svo að venjuleg sólgleraugu gera gagn þá ná þau ekki að loka eins vel og því fáum við fok meðfram þeim inn á augun. Jöklagleraugu eru góð þar sem þau ná að loka alveg en það getur skafið meira á þau og ekki hreinsast af þar sem glerflöturinn sjálfur er minni. Skíðagleraugu eru góð af því leyti að þau eru með stórum glerflöt þannig að við sjáum vel til hliða jafnt sem fram og þannig loka þau vel að augunum okkar. Flest þeirra eru með öndunargötum sem forða frá því að móða safnist á gleraugun sem getur verið bagalegt. En svo er það líka þessi huglægi þáttur, oft á tíðum finnur maður fyrir meiri frið og ró frá veðri þegar augun okkar verða ekki fyrir áreitinu sem gengur á fyrir utan þau, við getum fylgst með veðrinu án þess að blikka! 😉
Svo má ekki gleyma þeim sem nota gleraugu nú þegar og þurfa að ganga með þau. Vandamálið verður þegar það fennir á þau, móða safnast og útsýnið verður lítið sem ekkert. Þá er hægt að smella skíðagleraugum yfir gleraugun og þannig séð skýrt og vel frá sér.
Skíðagleraugu koma í öllum stærðum, gerðum og verðum og því best að kíkja við í nokkrar útivistar- eða gleraugnabúðir og máta til áður en ákvörðun er tekin um kaup.