Það er alltaf hægt að bæta við fleiri lyklum á reynslukippuna, læra nýtt eða rifja upp það sem maður nú þegar kann! Að þessu sinni ætlum við að fjalla um eitt af þessum atriðum sem eru svo sjálfsögð að þau gleymast alltof oft.
Nútímatjöld eru gerð úr léttum og þunnum efnum, sterkum og vatnsheldum en mjög þunnum. Það er gert til þess að hafa þau meðfærileg á milli tjaldstaða, sem léttust til að bera. Ef við tökum það og bætum við íslenskri sumarnótt fáum við út mjög bjarta nótt inn í tjaldinu. Og þar liggur oft vandinn við góðan nætursvefn, inn í tjaldinu er svo bjart að okkur reynist erfitt að sofna. Heima fyrir drögum við bara gardínurnar niður og lokum augunum en inn í tjaldi er það ógerlegt. Augun leita í ljósið og eiga mun erfiðara með að slaka á.
Og hér koma svefngrímur til sögunnar og bjarga nóttinni! Ein þannig yfir augun og bjarta tjaldið verður allt í einu að dimmum og róandi stað og framundan frábær tjaldsvefn!
p.s. bætið eyrnatöppum við formúluna og útkoman verður ennþá betri. Fuglasöngur og umhverfishljóð eru róandi en allt er gott í hófi og stundum þarf maður bara á góðum nætursvefni að halda. Hendið einu pari í lítið box t.d. utan af eldspýtum og látið það fylgja með svefngrímunni.
Framundan eru frábærar tjaldnætur – njótum vel og náum góðum svefni!