…hugarfar?
Hvað eiga þessir tveir mögnuðu tindar sameiginlegt? Alveg heilan helling…og hugarfar er eitt af því. Og nú um þessar mundir, þegar jöklatímabilið er að hefjast í Öræfasveitinni og allir þeir sem ætla sér á tindana að verða tilbúnir er vert að minnast á hugarfarið.
Eftir að hafa verið að ganga á fjöll í allan vetur, í öllum veðrum, græja sig upp, læra um orkubirgðir, notkun ísaxa og hvernig á að taka fullkomnar Instagram myndir, þá er komið að því. Aðeins örfáir dagar í brottför og þú stendur fyrir framan útbúnaðinn þinn og hugsar allt í einu “er ég í alvöru að fara að gera þetta” eða heldur “er ég í alvöru að fara að GETA þetta”?
Þessi spurning sem kemur upp í kollinum er eins eðlileg og að bursta í sér tennurnar á morgnana, hún kemur upp hjá öllum, líka þeim sem hafa farið þessar leiðir ótal sinnum. Ekki örvænta, við lendum öll í þessu!
Framundan er stórt verkefni sem við höfum verið að undirbúa í dágóðan tíma, og nú þegar endirin nálgast er sjálfsagt mál að maður fari að flækja hlutina að óþörfu, að sjá fyrir sér verstu sviðsmyndir eða jafnvel að efast um eigin getu. Hér kemur rétt hugarfar til leiks. Það skiptir svo miklu máli, jafn miklu og góðar æfingar.
Rétta hugarfarið gefur okkur þessa auka orku sem við þurfum þegar á reynir…og það mun gera það á þessum +12klst göngum. Við þurfum að undirbúa hugan þó vel fyrir, gera það heima, segja við okkur afhverju við erum að þessu, hver er ástæðan fyrir þessari vegferð? Það er einnig mikilvægt að sjá fyrir sér aðstæðurnar, hvað er framundan og hvernig við tökumst á við það. Og mikilvægast af öllu, að sjá sig toppa fjallið, standa uppi á efstu brún með ísexina á lofti! Sú mynd kemur manni þangað.
Þegar óvissan kemur upp í kollinn á okkur verður gott að leita í þessi svör og myndir, minna sig á “afhverju” og halda síðan áfram.
Þessir mögnuðu tindar eiga margt sameiginlegt og rétt og jákvætt hugarfar er eitt þeirra!
Megi Öræfatímabilið verða frábært í ár fyrir ykkur öll!