Press "Enter" to skip to content

Síldarmannagötur

Á næstu dögum ætlum við að birta þrjár skemmtilegar, A-til-B göngur sem henta flestum. Fyrst fjölluðum við um Leggjabrjót og hér kemur sú næsta í röðinni, Síldarmannagötur.

Í þessari leiðarlýsingu fetum við í fótspor forfeðra okkar og örkum gömlu verslunar- og þjóðleiðina Síldarmannagötur. Síldarmannagötur liggja úr Botnsdal í Hvalfirði og yfir í Skorradal – eða öfugt. Allt eftir því á hvort endanum þú kýst að byrja. Það eina sem þarf að gera er að huga að bílamálum á upphafs- og lokastað göngunnar því gangan er frá A-B.

Þar sem okkur þykja það frábær verðlaun að horfa yfir fagran Hvalfjörðinn seinni hluta göngunnar ætlum við að hefja leika inn í Skorradal.  

Í gegnum skóginn

Síldarmannagötur eru taldar draga nafn sitt af síldarævintýrinu í Hvalfirði þegar fjörðurinn fylltist af síld. Skorradalsmenn og Borgfirðingar létu ekki sitt eftir liggja í veiðinni og gengu svo, stystu leið, heim með varninginn yfir Botnsheiðina og í verslun sem þá var starfandi í Skorradal.

Brúin góða

Við hefjum gönguna innarlega í Skorradalnum, keyrum framhjá bænum Fitjar og að trébrú sem liggur yfir Fitjaá. Hægt er að keyra yfir brúna og áfram veginn en þar sem vegurinn er illfær mælum við með því að skilja bílinn eftir hinumegin við ána – nú eða láta bílstjórann hleypa ykkur út þar – reima á ykkur gönguskóna, smella bakpokanum á bakið og byrja gönguna.

Í fyrstu er gengið eftir veginum rúma 2 km þar til tekin er kröpp vinstri beygja, við fyrstu stiku, og haldið upp brekkuna. Leiðin öll er bæði vörðuð og stikuð og því nokkuð þægilegt að rata en við mælum að sjálfsögðu alltaf með því að hafa meðferðis gps tæki eða kort og áttavita þar sem skyggni og veður getur breyst snögglega. Við leggjum til að þið stoppið reglulega í brekkunni og horfið yfir fagran Skorradalinn og Skorradalsvatnið. Það er útsýni sem fæst ekki gefins.

Skorradalsvatn

Þegar við komum upp brekkuna er mesta hækkunin búin. Það sem bíður okkar er sjálf Botnsheiði, sem er aflíðandi brekka og nokkuð þægileg á fótinn.

Gengið er eftir grófum stíg og troðning frá einni vörðu og að næstu, frá stiku til stiku. Nú fer að birtast fjallasýnin – OK (jökullinn sem áður var) og Baula í norðri (fyrir aftan okkur) og Hvalfell og Botnsúlur í austri en þangað stefnum við eftir stígnum. Við göngum framhjá Skjálfandafossi þar sem tilvalið er að stoppa og fá sér nesti áður en haldið er áfram. 

Enn eigum við eftir örlitla hækkun, varla neitt til að tala um þó.  Á vinstri hönd fer nú að glitta í tvær efnilegar vörður, Tvívörður, en þær marka hæsta punktur leiðarinnar sem er 487m yfir sjávarmáli. Það verða því ákveðin þáttarskil í göngu okkar um Síldarmannagötur en nú liggur leiðin niður á við.

Botnsheiði

Við höldum áfram eftir veginum meðfram ánni Bláskeggsá en hana þarf að fara yfir tvisvar sinnum. Engar áhyggjur þó, áin er fremur meinlaus og yfirleitt auðvelt að stikla yfir á steinum án þess að fara úr skónum og vaða (nema vatnavöxtur sé þeim mun meiri). Við höldum áfram göngu okkar og nú birtist okkur ægifögur sýn Hvalfjarðarins. Á hægri hönd (í vesturátt ef við ætlum að slá um okkur) blasir við Akrafjallið og beint framundan er fjallið Þyrill. Fyrir spræka göngugarpa er tilvalið að taka auka krók og bæta því fjalli við í safnið. Nú liggur leið okkar niður Reiðskarðið þar sem við fylgjum kræklóttum stíg í gegnum kjarrið um leið og við horfum inn eftir Botnsdalnum þar sem Botnsúlurnar standa tignarlega við hlið Hvalfells. Gangan endar svo við stóra vörðu á bílastæðinu hinumegin við veginn.

Varðan í Hvalfirði

Síldarmannagötur er 14km og hækkunin um 460m. Gangan nokkuð brött á fótinn í upphafi en er ekki krefjandi og hentar öllum þeim sem treysta sér í að ganga í nokkrar klukkustundir.

Þá er ekki eftir neinu að bíða.

Af stað örkum við – nú í fótspor forferða okkar yfir Síldarmannagötur.