Press "Enter" to skip to content

Haustútilegur – Hvert og hvenær (1. hluti)

Næstu daga ætlum við að fjalla um haustútilegur og reyna að svara þeim pælingum sem brenna á mörgum um þessar mundir, þegar sólin er farin að staldra styttra við og frostið að heilsa upp á okkur…get ég ennþá farið í útilegu með allt á bakinu?

Einfalda svarið er já! Og með góðum undirbúningi er svarið tvöfalt já!
Að ferðast með allt á bakinu, ganga um fjöll og dali og sofa undir berum himni er frelsi sem allir ættu að upplifa. Fyrir þá sem hafa gert mikið af þessu duga sumarmánuðirnir ekki og tímabilið fer oft að lengjast inn í haustið. Skiljanlega verða margir smeykir við þennan tíma enda mun kaldara veður, færri á ferð og styttri dagar. En um leið og maður kemst á bragðið þá er erfitt að stoppa!

Við ætlum að byrja á byrjuninni og fjalla í dag um hvert skal halda og hvenær, veðurfarslega séð.


Veður og tjaldferðalög haldast í hendur eins og popp og kók, án sólar og blíðu eru útilegur ómögulegar…eða hvað? Ef við höldum fast í þetta hugarfar er hætta á því að við förum afar sjaldan út á haustin þar sem veðrið er breytilegt og fáir sólríkir dagar úr að móða. En við látum það ekki stoppa okkur! Góður undirbúningur og lestur veðurspáa er lykillinn að árangri hérna.

Björt nótt framundan

Bjartir dagar og skýlausar nætur þýða kalt veðurfar að hausti til og því mikilvægt að hafa það í huga þegar veðurspáin er skoðuð. Maður getur freistast til að setja samasem merki á milli tunglmyndar og heitrar nætur á veður.is en raunin er sú að björtum nóttum fylgir kalt hitastig þar sem við höfum engin ský til að halda kuldanum frá okkur. Stjörnubjartar nætur eru fallegar en ský eru alls ekki slæm þegar kemur að því að tjalda og sofa úti. Við þurfum einnig að hafa úrkomu í huga, er að fara að rigna á okkur og gæti sú úrkoma breyst í snjókomu á einhverjum tímapunkti vegna kulda. Einnig vindur, úr hvaða átt kemur hann og hversu sterkur er hann. Þetta þurfum við að vita til að geta tekið ákvörðun hvar við tjöldum og hreinlega hvort tjaldið okkar muni þola nóttina sem framundan er.

Nóttin að verða klár

Út frá veðri tökum við ákvörðun um staðsetningu okkar, hvert ætlum við að fara, hvaða svæði ætlum við að skoða og hvar ætlum við að tjalda. Hér er gott að vera sveigjanlegur fyrir breytingum, sérstaklega í fyrstu skiptin. Útilega þarf ekki að vera flókin, upp í hæstu hæðum eða sem lengst frá bílnum okkar. Fyrstu skiptin, á meðan við erum að læra á okkur og þolmörk okkar, geta verið stutt frá bílnum. Það stutt að ef eitthvað kemur upp á getum við alltaf pakkað saman og farið heim. Hér á maður aldrei að fara fram úr sjálfum sér, heldur að byggja upp hægt og bítandi reynslu og þol.

Gott er að hafa í huga aðgang að vatni þar sem það er grunnurinn í hreinlæti okkar, eldamennsku og næringu. Það getur reynst erfitt að bera mikið vatn með sér fyrir daginn, kvöldið og morguninn eftir og því mun betra ef það er fyrir á svæðinu. Ár og lækir eru frábær uppspretta og auðvelda okkur allt líf.

Tjaldað við góða uppsprettu af vatni

Dæmi um skemmtilega staði til að byrja á eru t.d. Þingvellir, Kjós, Heiðmörk, Hvalfjörður eða Krýsuvík. Allt eru þetta aðgengilegir staðir þar sem hægt er að prófa sig áfram, ganga stutt (eða langt) frá bílnum og slá upp búðum. Nú, ef veður breytist til verri vegar, manni verður kalt eða annað þá er lítið mál að pakka saman í bílinn og halda aftur heim.

Þegar von er á köldu lofti er gott að hafa í huga að tjalda ekki á lægsta punkti sem í boði er. Kalda loftið mun alltaf leita þangað, staldra við og halda áfram að kæla. Hér er gott að velja sér stað sem er þá nokkrum metrum fyrir ofan, þannig leitar kalda loftið fram hjá okkur og við finnum ekki eins mikið fyrir því. Sem dæmi, ef ákveðið hefur verið að ganga inn dal þá er ráðlagt að tjalda ekki ofan í botni hans heldur á svæði sem liggur aðeins ofar t.d. að finna jafna hlíð í fjallinu. Þannig mun kalda loftið leita neðar og við fáum jafnvel betra útsýni.

Fallegur fjalla morgun

Lykillinn að góðri fyrstu haustútilegu er einfaldleiki og öryggi. Höfum öryggið að leiðarljósi og förum ekki fram úr okkur. Höldum hlutum einföldum svo við getum haft hugann við ævintýrið og notið þess sem mest!

Næst munum við fjalla um útbúnaðinn okkar, fatnað og “húsið” okkar. Bíðið spennt!