Þú ert kominn með nýja, fína úrið þitt á höndina, búin að sækja appið í símann og setja allt í gang til þess að telja daglegu skrefin…og hvað svo? Hvað er eiginlega mælt með að taka mörg skref á dag?
Þegar þessi spurning er gúggluð koma tölurnar á bilinu 7.000-12.000 oftast upp, neðri mörkin eru hugsuð til að viðhalda núverandi formi og þau efri eru til þess að bæta það. Út frá þessu bili kemur síðan hin gullna tala, talan sem við ættum að vera að stefna að á hverjum degi, talan sem mun bæta formið okkar smán saman, talan sem gerir okkur södd í lok hvers dags…10.000!
10.000 skref jafngilda ca 8km vegalengd. Þegar þetta er sett svona upp virðist talan vera óyfirstíganleg, þetta eru margir kílómetrar sem þarf að fara yfir daglega! En hér er gott að staldra við og hugsa til baka, hvað gekk ég mikið í gær, yfir allan daginn, heima, í vinnunni, í búðinni, í útivistinni? Þegar þetta er allt lagt saman kemur í ljós að við erum kannski ekki svo langt frá 10.000 skrefa markinu, rétt undir því eða vel yfir því. En hér sést einnig að til að þetta markmið náist þurfum við að hafa það ávalt í huga, margt smátt gerir eitt stórt nefnilega. Næst þegar kemur að því að leggja bílnum í vinnunni, leggjum lengra frá hurðinni og löbbum síðan. Tökum stigann í staðinn fyrir lyftuna, stöndum reglulega upp frá borðinu og röltum inn í matsal, í átt að vatns- eða kaffivélinni. Ekki gleyma síðan að leggja lengra frá hurðinni í búðinni á leiðinni heim.
Svo er það hreyfingin, daglegur göngutúr, á fjall eða jafnsléttu, gerir kraftaverk fyrir líkama og sál. Hann losar um spennu og orku, við leyfum huganum að reika og sköpunargáfan fær að njóta sín. Fyrir utan þetta…þá telja skrefin í átt að markmiðinu okkar!
Þegar dagurinn er síðan tekinn saman, við kíkjum í appið í símanum okkar eða á úrið, kemur í ljós að þetta tókst, við náðum 10.000 skrefum í dag!
…á morgun er síðan nýr dagur og 10.000 skrefin bíða okkar aftur.
Þegar þetta er orðið að venju í daglegu lífi okkar, við stefnum alltaf á að ná 10.000 skrefum á dag og það gengur upp, þá er gott að krydda markmiðið aðeins, til þess eru þau nú! Núna ætlum við að bæta okkur um 1% á hverjum degi….1%…bara 1%! Ef við náum 10.000 í dag þá stefnum við á 10.100 á morgun. Ef það næst þá 10.201 eftir það…og svona koll af kolli!
10.000 skref á dag – setjum stefnuna á þessa gullnu tölu!