Hin sístækkandi Fossavatnsgangan var haldin síðustu helgi á Ísafirði. Yfir 1.100 þátttakendur voru skráðir til leiks í ár í hinum ýmsu vegalengdum. Í blíðu og frábæru færi var lagt af stað og eftir rúmar tvær klukkutundir komu fyrstu keppendur í mark í 50 km göngunni en það er vegalengdin sem keppendum hefur verið að fjölga jafnt og þétt.
Fyrstu þrjú sætin í karlaflokki féllu núverandi og fyrirverandi ólympíuförum í vil. Í fyrsta sæti var Ilya Chernousov en hann vann til bronsverðlauna á Vetrarólympíuleikunum í Sochi árið 2014. Saga af þeim verðlaunum er þó flóknari en þetta þar sem bæði gullverðlaunahafinn og silfurverðlaunahafinn voru settir í bann vegna lyfjahneykslis sem kom upp árið 2016 og Ilya var færður upp í 1. sæti um stund. Í byrjun þessa árs var þessi ákvörðun afturkölluð og hann færður aftur í 3. sætið þó að sætin fyrir ofan hann eru skráð auð. Merkileg saga.
Í öðru sæti um helgina lenti Alexander Panzhinskiy en hann er silfurverðlaunahafi frá Ólympíuleikunum 2010 í Vancouver. Í þriðja sæti var svo Svorri Eyþór Einarsson en hann keppti fyrir Íslands hönd á síðustu Vetrarólympíuleikum.
Í kvennaflokki var það Maria Gräfnings sem lenti í fyrsta sæti, Anouk Faivre Picon var önnur og Selina Gasparin varð þriðja en hún var silfurverðlaunahafinn í skíðaskotfimi á Vetrarólympíuleikunum árið 2014. Þess má geta að hún er gift Ilya Chernousov sem sigraði karlaflokkinn.
Það var því mikið stuð á Ísafirði þessa helgina eins og oft áður og gaman að sjá hvað Fossavatnsgangan fer stækkandi ár frá ári.
Comments are closed.