Þetta er ein algengasta spurningin sem spurð er við upphaf hverjar göngu. Og skiljanlega! En svarið er afar einfalt í okkar huga.
Göngustafir er frábært fyrirbæri! Þá er hægt að fá í flestum útivistarverslunum og úrvalið mikið. Eftir að búið er að versla þá og læra að nota rétt er ekkert því til fyrirstöðu að þeir fylgi okkur í öllum göngum, alltaf. Stafirnir eru nefnilega hjálpartæki sem gera okkur lífið auðveldara uppi á fjalli og hér skiptir í raun ekki máli hversu hátt eða lágt það er.
Stafirnir hjálpa okkur upp brekkurnar, við sækjum á landslagið með höndunum og náum þannig betri ferð. Þeir hjálpa okkur niður brekkurnar líka, með því að bremsa líkamann niður og dreifa álaginu á hann allan, ekki einungis á hnén og lærin. En þeir hjálpa okkur líka á jafnsléttu með því að leiðrétta líkamsstöðuna, fá okkur til að ganga upprétt í baki og minnka þannig líkur á meiðslum eða óþarfa líkamsþreytu.
Stafir eru því frábærir og ættu alltaf að vera með í för eftir að maður hefur vanið sig á að ganga með þá. Þeir eiga heima á bakpokanum og hey…í versta falli verða þeir bara þarna og koma að góðum notum þegar þurfa þykir!