Fellin í kringum Höfuðborgarsvæðið eru mörg og misjöfn, mis há og mis erfið. En það sem þau eiga sameiginlegt er að vera góð æfing í fallegu umhverfi. Stundum er bara skemmtilegra að fara út á fell en inn í líkamsræktarsal.
Hér kemur topp 5 listinn yfir fellinn sem okkur finnast skemmtileg.
Helgafell í Hafnarfirði – Það er varla hægt að búa til svona lista nema að nefna Helgafellið góða, æfingarfjall Hafnfirðinga og eflaust fleiri. Það sem er svo skemmtilegt við þetta fjall að okkar mati er gangan að því, hún er ca 1 km að lengd og á leiðinni nær maður að hitna vel áður en lagt er af stað í klifrið sjálft. Það er síðan þægilegt, nokkuð bratt þannig að maður sækir hratt á fjallið, sérstaklega ef farin er leiðin í gegnum gilið sem snýr beint að manni. Hin leiðin er meðfram fjallinu og er hún örlítið þægilegri ef maður vill ekki klifra of hratt. Útsýnið af fellinu er mjög mikið, allt frá Reykjanesinu yfir á Esjuna og jafnvel Snæfellsnes á góðum degi. Ef þú hefur ekki prófað þá verðuru að gera það næst! Keyrt er að Kaldárseli og gengið á fellið þaðan.
Úlfarsfell í Reykjavík – Eins og Helgafellið þá er þetta eitt af þeim sem allir ættu að ganga á…allavega einu sinni í mánuði! Úlfarsfellið er auðvelt yfirferðar og þægilegt á fótinn. Það er ekki mjög bratt og því ættu allir að ráða við það. Okkur finnst skemmtilegast að ganga á það frá Skyggnisbrautinni, íbúðarhverfinu í dalnum. Þannig lengist gangan smá og verður enn betri æfing. Einnig er hægt að ganga á fellið frá Skógræktinni, sem er við hlið Bauhaus. Útsýnið af toppnum er yfir Reykjavík öðru megin og Mosfellsbæ hinu megin, mjög fallegt.
Búrfell í Hafnarfirði – Búrfell og Búrfellsgjáin er svæði sem hægt er að ganga, hlaupa eða hjóla á. Það er mjög þægilegt yfirferðar og verður raunhækkun ekki fyrr en í lokin þegar gengið er á fellið sjálft. Þangað til gengur maður í gjánni, á stígum og móum sem eru jafn fallegir að vetri og sumri. Þetta er skjólgóður staður og oft getur þarna verið algjört logn þó svo annarsstaðar blási. Búrfellið er ekki langt frá Helgafelli í Hafnarfirði í því hægt að sjá það af toppnum. Einnig sér maður yfir Heiðmörkina og yfir á Bláfjöll. Til að komast þangað er keyrt Heiðmerkurveg frá Hafnarfirði og lagt á merktu bílastæði. Þægileg ganga sem allir ættu að ráða við.
Mosfell í Mosfellsbæ – Mosfellsbærinn er þekktur fyrir mörg frábær fell og er þetta eitt þeirra. Þegar keyrt er Þingvallaveg þá blasir það við manni á vinstri hönd, við Mosfellskirkju. Fellið er bratt og toppurinn sjálfur langur og breiður, það tekur því tíma að komast að vörðunni sjálfri sem merkir hann. Útsýnið er ekki síðra en á hinum fellunum, yfir Esjuna og rætur hennar, Móskarðshnúka, Faxaflóann o.fl. Þetta er mjög skemmtileg sumarkvölds ganga þar sem á sumrin er gengið í gegnum engi full af lúpínu, litadýrðin er því mikil og mjög myndvæn. Hendið ykkur á þetta!
Grímansfell í Mosfellsbæ – Að lokum er það Grímansfell eða Grimmmansfell eins og aðrir kalla það. Staðsett á Mosfellsheiðinni, við Gljúfrastein, er það fellið sem við keyrum oft fram hjá og er okkur á hægri hönd á leiðinni á Þingvelli. Fellið leynir á sér, það er bratt til að byrja með ef farið er frá Vindhóli. En þegar komið er upp á það er leiðin þægileg, nokkuð flöt og góð. Gengið er á fellinu í dágóðan tíma áður en toppnum sjálfum er náð. Þaðan er útsýnið yfir hin fellin sem fjallað hefur verið um og yfir á Mosfellsheiðina. Hægt er að fara sömu leið tilbaka eða ganga hring, niður meðfram Hjálm eða í hina áttina, niður í átt að Gljúfrasteini. Hvort sem valið er þá er þetta löng og skemmtileg ganga með miklu útsýni.
Hér að ofan höfum við fjallað um topp 5 fellin sem okkur finnst skemmtileg í nálægð við borgina. Þó eru þau töluvert fleiri og eflaust efni í annan lista…hver veit nema að hann komi síðar. En þangað til, allir af stað á fellin!
Comments are closed.