Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur undanfarin ár valið jólagjöf ársins og að þessu sinni urðu samverustundir fyrir valinu. Og að okkar mati eru það frábærar jólagjafir!
Góðar stundir á fjöllum eru ómetanlegar. Að vakna snemma af því að það er hópur sem bíður eftir manni, náttúra sem kallar eða upplifun sem maður hefur beðið eftir er vel þess virði að rífa sig fram úr. Okkar reynsla er sú að fyrirfram ákveðin dagskrá sem komin er í dagatalið er góð og jákvæð skuldbinding sem heldur manni við efnið og er oft akkúrat það sem þarf til að láta hlutina gerast. Þetta er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að gönguhópar eru ávallt vinsælir. Þar liggur dagskráin fyrir, komin í dagatalið, hópurinn bíður eftir hvort öðru og býr þannig til jákvæða skuldbindingu við hvort annað. Saman náum við árangri og búum til frábærar samverustundir.
En svo er líka rosa rosa rosa gaman að eiga eitthvað í dagatalinu til að hlakka til. Einhverja geggjaða ferð seinna á árinu sem er þarna, laumast í dagatalinu og bíður eftir manni. Tilhlökkunin verður meiri og meiri þeim nær sem dregur að brottför. Samverustundin með öðrum, vini, maka, systkini o.fl.
Við gefum því samverustundum full meðmæli og leggjum til að allir gefi að minnsta kosti eina í gjöf þessi jólin!