Svæðið sem margir hafa heyrt af en fáir hafa gengið, Trölladyngja og Grænadyngja, er í örfjarlægð frá höfuðborginni og leynir mikið á sér. Þessa leið er því vert að skoða betur.
Keyrt er sama afleggjara og liggur að Keili og svo aðeins lengra, að rauðum hól sem kallast Eldborg. Hér hefst gangan, frá bílastæðinu sjálfu. Í upphafi er gengið eftir góðum slóða, gömlum jeppaslóða sem liggur alla leið að fyrsta stoppi, fyrsta toppi, Trölladyngju. Hér er gengið upp bratta hálsinn, alla leið upp á topp þar sem magnað útsýni tekur á móti manni.
Fyrsti toppur búinn, tveir eftir. Nú skal haldið niður af Trölladyngju, niður bröttu hlíðina og aftur á flatlendið. Hér er mikilvægt að stíga þétt og öruglega þar sem nokkuð er um lausamöl á leiðinni. Eftir að komið er niður er haldið til vinstri og upp á næsta topp, Grænudyngju. Að þessu sinni er gengið í móum og jafnara landslagi, uppgangurinn er því töluvert þægilegri.
Þegar komið er upp á topp Grænudyngju er útsýnið ekkert síðra en áður. Horft er ofan í Hörðuvallaklof og alla leið yfir á Sveifluháls.
Eftir að þessar tvær dyngjur eru toppaðar er að öllu jöfnu snúið við og gengið til baka. En að þessu sinni ætlum við að ganga aðeins lengra og ná einum toppi í viðbót, Fíflavallafjalli. Gengið er aftur niður Grænudyngju, niður hlíðar hennar og eftir kindagötum í átt að næsta toppi. Hér er gangan mjög blönduð, í upphafi er gengið á þægilegum stíg en fljótt breytist hann í gróft landslag. Eftir um 20 mínútur er komið að síðasta toppi. Hann er brattur og ekki stór og því mikilvægt að fara varlega á leiðinni upp.
Á toppnum tekur þetta útsýni við manni, yfir Sveifluháls í fjarska og Djúpavatn.
Hér göngum við niður og sömu leið tilbaka að Grænudyngju, við förum ekki upp á hana aftur heldur meðfram og alla leið tilbaka að bílastæðinu.
Þessi ganga er um 10km löng með 430m heildar hækkun. Hún tekur að öllu jöfnu 2,5klst á góðum hraða með mörgum myndastoppum. Hún er upplögð til að taka eftir vinnu, komast út í náttúruna og njóta…ekki þjóta.
Passið ykkur bara á veginum upp að bílastæðinu, hann er grófur og því mikilvægt að fara hægt yfir.
Af stað nú…upp á þrjá toppa!
Comments are closed.