Þar sem nú er farið að dimma er vert að huga að góðu höfuðljósi með í bakpokanum þegar lagt er í’ann á fjall. En hvað er “gott” höfuðljós og að hverju þarf að huga?
Markaðurinn með höfuðljós er gríðarlega stór og flest allir stórir framleiðendur útivistarbúnaðar eru með eitt eða tvö á sínum snærum. Úrvalið og fjölbreytnin er því mikil en í grunnin gera þau það sama, að lýsa leið manns þegar myrkrið skellur á.
Það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga þegar ljós er valið:
Styrkur (lumens) : þeim hærri tala, þeim meiri styrkur…og í flestum tilfellum, þeim dýrara ljós. En þetta er ekki ósvipað því og að kaupa sér bíl, hér þarf maður að hugsa “þarf ég allt þetta?” Í venjulega göngu dugar að vera með 60-150L ljós, ekki of sterkt né flókið.
Vatnsheldni : það er gott að hafa í huga hvort ljósið þolir veður og vind og þá sérstaklega rigningu. Það getur nefnilega verið bagalegt að þurfa að taka ljósið af sér um leið og það byrjar að dropa. Þau allra ódýrustu ljós eru ekki með neina vatnsheldni né þéttingar og henta því ekki vel í útivist, frekar í notkun á heimilinu, bílskúrnum eða dimmum geymslum. Ef nota á ljós í útivist af öllu tagi er því gott að skoða örlítið dýrari ljós og fá þannig meira fyrir peninginn. Þau allra dýrustu eru síðan alveg vatnsheld og hægt er að nota þau ofan í vatni. Ef hugmyndin er ekki að kafa með þau þá er það fítus sem er óþarfur og hægt að spara sér aurinn hérna.
Rafhlaða : flest ljós ganga fyrir AAA rafhlöðum, 3-4 stykkjum í senn og endist rafhlaðan vel við bestu aðstæður. Nú er einnig hægt að kaupa ljós með endurhlaðanlegri rafhlöðu, þau eru dýrari en þurfa ekki á AAA rafhlöðum að halda. Kostirnir hér eru þeir að ljósið er þá alltaf hlaðið (svo framalega sem maður man eftir því) og ekki þarf að kaupa rafhlöður. Þar sem þau eru hlaðin í gegnum USB er hægt að hlaða þau með hleðslubanka sem eru oft á tíðum nú þegar með í för og í bakpoka. Það er því hægt að vera með einn hleðslubanka með sér fyrir símann og myndavélina og nú líka fyrir ljósið.
Þessi atriði hér að ofan eru þau allra stærstu og mikilvægustu að okkar mati. Að sjálfsögðu er svo hægt að láta valið rætast eftir lit, stærð teygju og þyngd ljóss. Það mikilvægasta er þó að skoða úrvalið vel og velja ljós eftir sinni eigin notkun.
Af stað nú…lýsum leiðina!
Comments are closed.