Press "Enter" to skip to content

Vífilsfell

Vífilsfell ber fyrir augum okkar þegar við keyrum Hellisheiðina. Þetta háa og tignarlega fjall er skemmtilegt að ganga á og verðlaunar það mann með miklu útsýni til allra átta. Þetta er ævintýrafjall sem við mælum svo sannarlega með!

Gangan hefst frá bílastæðinu við malarnámuna, passið að leggja bílum ekki fyrir innan hliðið þar sem því er lokað og læst að öllu jöfnu kl. 18 og engin önnur leið út. Gengið er eftir veginum um 1km áður en komið er a fjallinu og uppgangan hefst á það. Fjallið er nokkuð bratt og því gott að ganga rólega og fara ekki of hratt strax í byrjun.

Útsýnið byrjar strax á fyrstu metrunum á leiðinni upp. Það er því upplagt að stoppa oft og njóta, taka myndir og sjá umhverfið á Hellisheiðinni í nýju ljósi. Brekkurnar eru þó nokkrar og því gott að skipta þeim upp, taka eina í einu, stoppa, fá sér sopa og halda svo áfram.

Um mitt fjallið, þegar komið er yfir eina hæðina, tekur við manni slettur kafli þangað til komið er að næsta hjalla. Þegar þokan er mikil er hægt að ruglast á að maður sé kominn á toppinn, það er nóg eftir.

Síðasti hjallinn er nokkuð auðveldur þó hann sé brattur. Hér er gengið á bergi og auðvelt að fóta sig á því, maður kemst því ansi hratt upp þessa brekku og án vandræða. Hér mælum við með því að “sikk sakka” upp og fylgja stikunum til að auðvelda manni alla rötun. Eftir þetta er komið að skarði sem þarf að fara í gegnum, stiga stór og há skref og nota hendurnar við að lyfta sér upp bjargið sem er fyrir manni. Þetta hljómar erfitt en er það alls ekki! Hér er maður farinn að sjá til Bláfjalla hinu meginn en ennþá er smá kafli upp.

Toppurinn er skemmtilegur viðureignar. Þar er kaðall sem hægt er að nota við að styðja sig á leiðinni upp (og niður) en ekki nauðsynlegt. Komið er á toppinn sem er nokkuð flatur og hann genginn alveg til enda, þangað til maður kemur að grýttu bergi. Hér er toppurinn og má fagna loksins sigrinum með því að skrifa í gestabókina!

Að öllu jöfnu blasir við manni Hellisheiðin, Bláfjöllin, höfuðborgarsvæðið og Reykjanesið. Einnig er hægt að sjá Snæfellsnesið á góðum degi. Við mælum með þessari göngu um há sumar sem dæmi, þá er hægt að sjá sólina koma yfir Snæfellsjökul og er það ansi tignarleg sjón.

Leiðin niður er sú sama og upp, hægt og rólega niður allar hæðirnar og alla leið á bílastæðið.

Gangan er um 6km löng og tekur um 3 klst. með nokkrum stoppum. Af stað nú…allir að krossa við Vífilsfellið!

Comments are closed.