Press "Enter" to skip to content

Við mælum með…Wikiloc

Þegar kemur að því að finna leiðir til að ganga eftir, vista sínar eigin leiðir og tölfræði og grúska almennt í kortum er vefsíðan Wikiloc.com frábær vettvangur til þess.

Við lendum oft í því að þurfa á hugmyndum að halda hvar skal ganga næst. Þessi vefsíða leysir það vandamál með sínum stóra grunni af leiðum. Í grunninn er hugmyndafræðin einföld, þetta er einskonar samfélagsmiðill og gagnagrunnur fyrir útivistartýpurnar þar sem fólk kemur saman og deilir því sem það hefur verið að gera.

Eftir að stofnaður hefur verið frír aðgangur er lítið mál að nota leitarstikuna og hefja grúskið. Okkar regla hefur verið sú að ef það er til leið eða fjall sem þig langar að ganga á þá eru mjög góðar líkur á því að einhver annar hefur nú þegar farið hana og sett inn leiðina eða “trakkið” inn á vefinn. Þarna er því hægt að finna mikið safn af trökkum af öllu landinu.

Þegar leiðin hefur verið fundin er lítið mál að sækja hana í tölvuna sína og flytja í sitt eigið GPS tæki enda allar skrár svokallaðar .gpx skrár sem er alþjóðlegur staðall GPS skráa. Það skiptir því lítið máli hvernig GPS tæki maður á, ef það er hægt að lesa skrár inn í það þá munu þessar skrár virka.

Vefsíðunni fylgir einnig app sem hægt er að sækja fyrir Android og Apple síma og sjá þannig leiðirnar í símtækinu sínu, fylgja þeim og búa til sínar eigin. Appið er einnig frítt.

Þetta er skemmtileg síða sem er hægt að gleyma sér á, búa til ævintýri og skoða leiðir annara. Við hvetjum þó alla til að skoða vel hverja leið og ekki fylgja þeim í algjörri blindni nema að vera búin að kynna sér þær rækilega. Höfum allan varan á eins og alltaf.

 

Af stað nú…allir að grúska á Wikiloc!

Comments are closed.