Hver er munurinn á þessu tvennu? Hvort er betra að nota? Hvenær eru lúffur bestar? HJÁLP!
Þetta eru allt eðlilegar pælingar enda eru puttarnir ansi mikilvægir okkur og því þarf að huga vel að þeim. Örvæntið því ekki, við ætlum að renna aðeins í gegnum þetta málefni í dag.
Það er mikill munur á fingravettlingum og lúffum, ekki einungis útlitslega séð heldur líka hvernig þeir nýtast okkur og við hvaða tækifæri. Rennum aðeins yfir helstu atriði þeirra.
Fingravettlingar : ná utan um puttana okkar eins og orðið segir, hver putti fær sér hólf. Því nýtast þeir okkur best þegar við þurfum á puttunum lausum að halda, t.d. við vinnu, halda betur utan um hluti og fleira þess háttar. Þetta er sú allra einfaldasta útskýringin en í raun þarf ekki að flækja hlutina frekar. Í dag er hægt að fá fingravettlinga í ýmsum þykktum og hlýleika og því nauðsynlegt að velja vel eftir því í hvað ætlunin er að nota þá. Sem dæmi nýtist þunnt flís vel í útihlaupin og almenna útiveru, þykkari með GoreTex filmu í vetrar fjallgöngur og Primaloft fylltir í allra hörðustu jöklaferðir. En í grunninn eru þetta allt fingravettlingar með hólfi fyrir hvern putta, hólfi sem hver putti þarf að hlýja. Þar komum við einmitt að gallanum við fingravettlinga. Þegar komið er að því að halda hita á puttum er það mun erfiðara í fingravettlingum vegna hólfanna, hver putti þarf að nýta orku í að hlýja upp hólfið og því eins og vera ber fer meiri orka í það í þessari tegund fingravettlinga. Hafið þetta því á bakvið eyrað ef leggja á af stað í ferð þar sem ekki er krafist þess að nota puttana eina og sér og von er á miklum kulda. Þá koma vinir okkar, lúffur, til sögunnar.
Lúffur : eða belgvettlingar eru einn belgur/hólf sem nær utan um alla puttana og halda þannig á þeim hita. Einfalt og flott. Kosturinn er akkúrat þessi, minni orkuþörf til að halda hita á puttunum og tekur skemmri tíma til að ná hita upp þegar farið er í þá í köldu veðri. Hver þekkir það ekki að vera kallt á puttunum, fara í lúffur og vera svo rakur eftir augnablik, tilbúinn til að rífa lúffurnar af sér aftur. En einnig, hver þekkir það ekki að vera í lúffum og geta ekki gripið utan um eða haldið á hlutum, puttarnir fastir og hreyfigetan takmörkuð. Það er einmitt gallinn við lúffurnar, það er mun erfiðara að vinna í þeim. Í dag er hægt að fá lúffur úr hinum ýmsu efnum og fyllingum og gott að velja þá tegund sem auðvelt er að fara í og heldur á manni vel hita. Einnig mælum við með því að velja efni sem er vatns- og vindhelt enda munu þær vera notaðar í öllum veðrum.
Eins og lesa má úr punktunum hér að ofan er valið ekki svo einfalt en þarf heldur ekki að vera flókið. Það þarf að meta hvort og hvernig maður ætlar að nota vettlingana eða lúffurnar og hvort nýtist manni betur. Það er ekki óalgent að vera með bæði í bakpokanum í lengri göngum, ganga í fingravettlingum en fara í lúffurnar í stoppum eða þegar það kólnar mikið í veðri. Að vera kallt á puttum getur verið bagalegt og haft mikil áhrif á upplifunina í útivistinni, pössum því vel upp á þetta og njótum.
Af stað nú…allir að finna sína leið við að halda puttunum heitum!