Við gerum ráð fyrir að allir séu um þessar mundir að ferðast heima innandyra. Skv. Víði er það málið og á þessum vettvangi er öllu tekið sem hann segir sem heilögum sannleik! Við höfum þó frétt af því að fólk er ekki nógu duglegt að ferðast sem víðast á milli herbergja og það veldur miklum áhyggjum! Rútínan er víst einföld, úr eldhúsinu, inn í stofu, þaðan inn á klósett og síðan inn í svefnherbergi upp í rúm. Eins og þið sjáið verður þvottahúsið skilið útundan…svipað og Vestfirðirnir á hringveginum! Bætum úr því núna.
Hér hefur áður verið fjallað um þvott og viðhald á skeljum en nú er komið að því að ræða almennt um viðfangðsefnið sem svo oft gleymist.
Er einhver sérstök leið/kerfi við að þvo útivistarflíkur?
Hér fyrr á árum var sagt að maður ætti að þrífa útivistarfötin sem sjaldnast þar sem þau myndu missa eiginleika sína, vatns- og vindvörn. Ég veit ekki hvernig lífið var í gönguhópunum þá en get ímyndað mér það hafi verið í erfiðari kanntinum þegar leið á sumarið og allir í skítugum og sveittum flíkum.
Í dag hefur þetta sem betur breyst, efnin þróast og orðið mun betri og endingarmeiri. Nú hvetja framleiðendur til þvotta og almenns viðhalds þar sem það lengir líftíman og endurnýjar eiginleikana.
Besta leiðin er að nota milt, fljótandi þvottaefni og ekki þvo of margar flíkur saman. Ég flokka eftir lögum sem dæmi, þvæ ullina saman, millilagið saman og svo skeljakka og buxur saman. Finnst það þægileg leið því þá eru svipuð efni saman í þvottavélinni og engin hætta á að þau skemmist. Sjálfur nota ég ullarkerfið fyrir ullina og svo 30-45min kerfi fyrir allar hinar flíkurnar. Ekki vinda mikið.
Þurrkari – já eða nei?
Fyrir ull og miðlag, almenn útivistarföt…nei. Það er óþarfi að nota þurrkara og í raun og veru betra að leyfa þeim bara að þorna náttúrulega. Og þar sem þetta eru útivistarefni þá munu þau þorna ansi hratt.
En fyrir dún- og primaloft fyllta jakka…þá já. Fyllingin þornar hraðar og betur og dreifir úr sér aftur, jakkinn verður puffy og eins og nýr.
Og að lokum, fyrir skeljar…þá stundum já. Það sem þurrkarinn gerir fyrir skeljar er að hann hitar upp límdu saumana og endurnýjar límið á þeim. Þegar flíkin “kólnar” síðan límist límið upp á nýtt og verður eins og nýtt. Lykilorðið hérna er samt “stundum” þar sem þetta er óþarfi hverju sinni. Sjálfur set ég skeljar í þurrkara ca á 5 þvotta fresti. Muna bara að nota lægstu mögulegu hitastillinguna. Af og til spreyja ég þau síðan með vatnsvörn frá NikWax til að endurnýja hana. Efnið fæst í brúsum í flestöllum verslunum og útivistarbúðum.
…að lokum, mýkingarefni…nei takk! Alls ekki nota þannig þar sem það sest djúpt í efnið og stíflar litlu öndunargötin í efninu, flíkin missir þannig eignleikana til að anda….og við verðum sveitt á bakinu!
…af stað nú…hendið í eina vél af útivistarflíkum!