Að geta ferðast um óbyggðir Íslands einn og óstuddur er frábær tilfining. Allt í einu þarf maður að stóla á sjálfan sig og þá þekkingu sem er til staðar til að leysa verkefnin sem á vegi manns standa. Til að geta gert það þarf maður þekkingu og reynslu. Nú þegar útivistaráhuginn er að aukast til muna hjá landanum og einstaklingar eru að ferðast einir eða í litlum hópum og makar eða vinir saman er gott að ræða hvar þekkinguna er hægt að finna og hverjir bjóða upp á hagnýt námskeið.
Námskeið fyrir byrjendur í útivist er hægt að finna hjá mörgum fyrirtækjum og félögum í dag. Ferðafélag Íslands, Tindar Travel, Vesen og Vergangur o.fl. aðilar bjóða upp á dagskrá á vorin og haustin þar sem farið er yfir grunntökin í fjallamennsku, hvert skal halda, hvernig á að klæða sig o.fl. atriði sem gott er að byrja á. Þarna er líka góðan félagsskap að finna sem er í sömu sporum og maður sjálfur, að byrja á byrjuninni.
Að geta veitt fyrstu hjálp í óbyggðum, rétt og faglega, er algjör nauðsyn þegar einstaklingar eru að ferðast um svæði sem er víðsfjarri mannabyggðum. Víðsvegar um heiminn er námskeiðið Wilderness First Responder (WFR) kennt og meðal annars á Íslandi. Námskeiðið er staðlað og veitir manni skirteini eftir að því lýkur. Það tekur 10 daga að klára og því mikil keyrsla. Hér er farið yfir ýmis atriði sem gætu komið upp í óbyggðum, fjarri læknum, lyfjum eða hjálpartækjum, t.d. beinbrot og hvernig á að hlúa að þeim, brunasár, alvarlegar tognanir og eitranir. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hafa verið að fá kennara erlendis frá til að kenna þessi námskeið og hafa þau gefið góða raun, kennararnir eru góðir og námskeiðin mjög fagleg.
Við getum ekki rætt námskeið án þess að nefna jökla og hvernig á að ferðast á þeim. Þessir skúlptúrar draga mann að sér og búa yfir orku sem erfitt er að lýsa. Oft er sagt að um leið og maður hefur prófað að ganga á jökli einu sinni þá er erfitt að snúa við. En að ganga á jökli getur verið jafn hættulegt og það er gaman og því nauðsynlegt að hafa alla hlutina á hreinu áður en lagt er í hann. Hér tölum við um harðan ís, eins og á Sólheimajökli sem dæmi en einnig mjúkan eins og á Snæfells- eða Eyjafjallajökli.
Námskeiðin Jökla 0 og Jökla 1 eru frábær leið til að kynnast grunntökum á jöklum, hvað skal gera og hvernig. Á þessum námskeiðum er farið yfir útbúnaðinn sem þarf að eiga til að ferðast af öryggi, leiðarval, hópstjórnun, björgun úr sprungum, uppsetning trygginga o.fl. o.fl. o.fl. Allt eru þetta atriði sem einstaklingur þarf að kunna til að geta ferðast af öryggi á þessum mögnuðu svæðum. Jöklarnir fyrirgefa seint og því gott að hafa vaðið fyrir neðan sig. Það eru þó nokkrir aðilar sem hafa verið að bjóða upp á þessi námskeið og eins og með mörg önnur eru þessi stöðluð og eftir að maður hafi staðist þau öðlast maður réttindi. Við mælum með Fjallaskólanum þar sem kennt er Jökla 0 sem ákveðinn grunnur fyrir Jökla 1. Asgard Beyond hafa einnig verið að kenna námskeðið þar sem það kallast Hard Ice.
Ekki má svo gleyma þeirri íþrótt sem hefur verið að ryðja sér til rúms hvað hraðast hér á landi undanfarin misseri, fjallaskíðun. Eitt sinn dugði manni að skella sér upp í Bláfjöll í lyfturnar og renna sér nokkrar ferðir niður. Nú hefur sportið breyst til muna og æ fleiri eru farnir að stunda það að “skinna” upp fjöllin og renna sér svo niður hinar ýmsu hlíðar. Frábær skemmtun sem við mælum með! En hér þarf maður að ferðast af öryggi eins og oft áður, kynna sér snjólög og forðast vafasöm svæði. Fjallaskíðun býður upp á frábær námskeið sem snúa akkúrat að þessu sporti. Farið er yfir grunntökin fyrir þá sem eru að byrja, leiðarval, notkun á öryggisbúnaði og snjóflóðamat. Frábær grunnur sem nauðsynlegt er að kunna.
Útivist er frábær skemmtun og að geta stundað hana af öryggi gerir upplifunina ennþá betri!
…af stað nú, kynnið ykkur þessi frábæru námskeið!