“Ætti ég að fá mér vatnspoka í bakpokann minn eða er betra að treysta á flöskur eins og ég hef alltaf gert?”. Við fáum þessa spurningu reglulega og langar því að taka saman nokkra punkta varðandi þennan vinsæla aukahlut.
Vatnspokar eru einfaldlega sérhannaðir pokar með drykkjarslöngu sem hangir yfir öxlina. Flestir bakpokar hafa sérstök hólf fyrir slíka poka. Í stóra samhenginu er eini tilgangur þeirra að gera okkur kleift að drekka vatn á ferð. Það er lítið um rangt og rétt þegar kemur að vatnspokum, en það eru sannarlega kostir og gallar við notkun þeirra sem fara eftir aðstæðum hverju sinni.
Af hverju drekkum við á göngu?
Til að byrja með er rétt að rifja upp af hverju við drekkum á göngu: Við drekkum einfaldlega til þess að halda líkamanum og höfðinu í lagi svo við getum bæði klárað gönguna okkar og notið hennar. Fyrsta einkenni alvarlegrar ofþornunar er höfuðverkur og oft ógleði. Ef ekki er gripið inn í munu einkennin versta; þolið minnkar, fólk svimar, missir matarlyst, verður jafnvel skapstirt og illa áttað.
Höfum í huga að allra fyrsta einkenni ofþornunar er einfaldlega þorsti. Að hafa vatnspoka í bakpokum er handhæg leið til að halda okkur vel vökvuðum á göngu. Við finnum oft ekki fyrir því hvað við erum þyrst fyrr en við byrjum að drekka og eigum þá jafnvel erfitt með að þamba ekki drykkinn okkar. Slíkt er ekki aðeins slæm forðastjórnun heldur lætur þamb okkur oft líða illa þegar við göngum af stað aftur.
Af hverju ætti ég að skoða vatnspoka?
Stærsti kosturinn við að hafa vatnspoka er að það hvetur okkur til að drekka reglulega, án þess að vera endilega þyrst. Það er óþarfi að taka af sér bakpokann til að sækja flöskur eða stoppa til að biðja samferðafólk um að rétta sér. Meiri líkur eru einnig á að fólki gangi vel að dreifa vatninu rétt yfir ferðina.
Annar stór kostur við vatnspoka er að með því að koma þeim fyrir næst bakinu á okkur náum við að færa stærstan hluta þyngdarinnar yfir í mjaðmaólarnar okkar, einmitt þar sem hún á að vera. Að hafa t.d. tvær stórar vatnsflöskur í sitthvoru hliðarhólfinu mun setja þyngdina meira á herðarnar.
Síðasti kosturinn sem vert er að nefna er að þeir gera okkur auðvelt að taka meira vatn með okkur en við hefðum annars gert. Þetta er vegna þess að þeir fara í sérhönnuð hólf, það fer lítið fyrir þeim og þyngdin dreifist vel.
Af hverju gæti ég viljað nota flöskurnar mínar áfram?
Að þessu öllu sögðu, þá hefur notkun vatnspoka nokkra galla sem nauðsynlegt er að vega á móti kostunum.
Stærsti gallinn er að oft vill frjósa í slöngunni að vetri til. Þetta er því miður nokkuð stór galli fyrir okkur sem búum á Íslandi og erum líkleg til að stunda útivist í dágóðum kulda stóran hluta ársins. Sumir framleiðendur bjóða upp á sérstaklega einangraðar slöngur, en reynslan sýnir að þær eru ekki algild lausn þó þær séu betri en ekkert.
Einnig má nefna sem galla að það er seinlegra að fylla á vatnspoka heldur en að dýfa einfaldlega flösku í læk. Að sama skapi er ógerningur að sjá hversu mikið er eftir í vatnspokanum. Þetta getur látið göngufólk stansa og hugsa við hverja lækjarsprænu hvort tími sé kominn til að taka pokann upp og kanna stöðuna. Fyrirhöfnin eykst ef vatnspokahólfið er innan í bakpokanum því þá þarf að taka hluti upp og endurpakka við áfyllingu eða stöðuathugun.
Þegar heim er komið er nauðsynlegt að þrífa pokann vel, jafnvel þó aðeins hafi verið vatn í honum. Reglulega þarf svo að hreinsa bæði pokann og slönguna með sápu.
Getum við tekið þetta saman?
Vandræðin við frosna slöngu, auk fyrirhafnarinnar við við áfyllingar og þrif, verða oft kostunum yfirsterkari hjá göngufólki. Þrátt fyrir allt er þó óumdeilt að nær allir sem prófa vatnspoka kunna vel við þægindin sem fylgja því að geta drukkið einn sopa í einu á göngu. Að sumarlagi eru frosnar slöngur úr sögunni og í styttri göngum þarf ekki að huga að áfyllingu. Hægt er að fá allt að 3 lítra vatnspoka sem dugar flestum í miðlungslangar göngur.
Við mælum því eindregið með því að göngufólk íhugi kosti vatnspoka!
GG Sport býður upp á vandaða vatnspoka fyrir Osprey-bakpoka frá 1,5 líter upp í 3 lítra.