Nepal – Grunnbúðir Annapurna 2025

From: 389.000 kr.

2025 dagsetningar:
– 5. nóvember – 17. nóvember

Category:

Description

Grunnbúðir Annapurna bíða okkar haustið 2025, framundan er stórkostlegt ferðalag!

Gangan upp í grunnbúðir Annapurna er ein af vinsælustu gönguleiðum í Nepal og þó víðar væri leitað. Hún er árlega á toppum vinsældalista víðs vegar um heiminn og það er ekki skrítið. Leiðin er umkringd stórbrotnu landslagi og snæviþöktum tindum Himalaya fjallanna. Ferðin leiðir göngufólk í gegnum fjölbreytta náttúru, frá grænu skóglendi og hrísgrjónaökrum til brattra fjallshlíða. Þetta er mikið ævintýri sem skilur margar minningar eftir og heilan helling af myndum. Mannlífið á leiðinni er skemmtilegt þar sem heimafólkið tekur brosandi á móti öllum og gefur mikið af sér. Dýralífið er einnig mikið þar sem hundar, apar, asnar, ernir o.fl. dýr verða á vegi okkar.

Ferðin okkar hefst í Kathmandu þar sem við eyðum einum degi áður en við fljúgum upp í fjöllin. Á leiðinni aftur til baka fáum við auka dag í Kathmandu sem við nýtum í skoðunarferðir og upplifun áður en flogið verður heim til Íslands. Ferðin er 13 dagar í heild sinni í Nepal og gera má ráð fyrir heilum degi fyrir og eftir ferð í ferðalag frá og til Íslands aftur.

Göngudagarnir eru mislangir í tíma og vegalengd, sjá dagskrá hér að neðan. Við göngum með léttan bakpoka á daginn en annar farangur okkar fer með burðarmönnum á milli náttstaða. Dagarnir er settir upp með það í huga að njóta sem mest en ekki hlaupa á milli staða. Gönguhraðinn er temmilegur og hentar hann því sem flestum. Mikið er um stopp á leiðinni og alltaf boðið upp á heitan hádegismat á göngunni.

Ævintýraferð sem þessi eru fyrir alla sem vilja stíga út fyrir íslensku fjöllin og upplifa magnað göngusvæði. Þó svo að göngudagarnir séu ekki langir né bakpokinn þungur þá munu þeir taka í sökum hæðar sem fer hækkandi með hverjum degi. Þátttakendur þurfa að vera í líkamlegu formi, ganga á fjöll reglulega fyrir brottför og æfa sig þannig. Besta æfingin er jú að ganga á fjöll. Ath að gangan er ekki tæknileg og gengið er eftir góðum stigum alla leiðina.

 

Dagskráin er sem hér segir:

Dagur 1 (5. nóvember)
Komið til Kathmandu og gist á glæsilegu 5 stjörnu hóteli.

Dagur 2 (6. nóvember)
Kathmandu dagur sem verður nýttur í helstu skoðunarferðir borgarinnar…eftir morgunmat á hótelinu að sjálfsögðu. Við förum í Pashupatinath musterið og skoðum síðan Boudhanath stupa og endum daginn á Patan Durbar torginu. Þessi dagur verður vel nýttur og munum við njóta leiðsagnar heimafólks sem ekur okkur um og segir frá.
Morgunmatur.

Dagur 3 (7. nóvember)
Við hefjum daginn snemma og fljúgum frá Kathmandu til túristaborgarinnar Pokhara og hefjum ferðalag okkar. Keyrt er til bæjarins Ulleri (2.000m) þar sem gist verður á tehúsi og allt gert tilbúið fyrir fyrsta göngudag.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 4 (8. nóvember)
Við hefjum göngu okkar í dag og förum frá Ulleri til Ghorepani (2.840m). Gengið verður í gegnum skóglendi, farið yfir margar ár og mannlífið skoðað. Næturstaðurinn er síðan fallegur bær með allir nauðsynlegri þjónustu, t.d. bakarí!
5klst – 8km – 700m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 5 (9. nóvember)
Í dag hefjum við daginn snemma til að ná sólarupprás upp á Poon Hill (3.210m). Þetta er sannkallaður útsýnisstaður og myndatækifærin verða mörg þar sem við munum horfa meðal annars yfir suðurtind Annapurna, Dhaulagiri og Annapurna I sem og fleiri magnaða tinda. Við kíkjum svo niður aftur í morgunmat og hefjum gönguna yfir á næsta næturstað, Tadapani (2.630m). Gengið verður upp á fallegum og grónum hlíðum sem og í gegnum skóglendi.
5klst – 11km – 500m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 6 (10. nóvember)
Þá kveðjum við Tadapani og höldum áfram til Chomrong (2.170m). Dagurinn er skemmtilegur brekkudagur þar sem við munum lækka okkur hratt niður og svo aftur upp á næturstað. Í Chomrong er hægt að versla sér góðan kaffibolla ásamt tertusneið…jafnvel tveimur! Skemmtilegur dagur með mjög miklu útsýni.
7klst – 11km – 600m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 7 (11. nóvember)
Nú höldum við áfram að hækka okkur og stefnum á bæinn Himalaya (2.920m). Nú erum við komin inn í dalinn sem mun leiða okkur alla leið að grunnbúðum Annapurna. Hann er djúpur með gríðarlega háum tindum allsstaðar í kringum okkur. Stígarnir eru áfram góðir og þægilegir og margt fallegt að sjá á leiðinni.
7klst – 13km – 1100m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 8 (12. nóvember)
Þá er komið að því, við setjum stefnuna á grunnbúðir Annapurna (4.130m) í öllu sínu veldi, í dag er dagurinn! Hann mun seint gleymast og munum við ganga rólega upp til að ná sem mestu út úr honum. Fjöllin verða há, landslagið mun breytast og verðlaunin á leiðarenda verða þess virði! Grunnbúðirnar bíða okkar ásamt góðum mat og drykk!
5klst – 7km – 850m hækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 9 (13. nóvember)
Við vöknum mjög snemma, löngu fyrir morgunmat, til að ná sólarupprásinni yfir grunnbúðunum og fjöllunum í kring. Þetta verður magnaður morgun sem mun seint gleymast. Eftir að myndavélarnar verða fullar af myndum og minningum komum við inn í morgunmat. Við pökkum saman og með lungun full af súrefni höldum við niður á leið á næsta næturstað okkar, Bamboo (2.310m). Nú erum við að lækka okkur!
7klst – 13km – 1500m lækkun.
Morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur.

Dagur 10 (14. nóvember)
Við höldum áfram að lækka okkur í dag og hefjum þennan síðasta göngudag af krafti. Morgunmatur, kaffi, te og fulla ferð niður. Framundan er nýtt útsýni og í lokin, ein lengsta hengibrú landsins. Þetta verður ansi magnaður endir á göngunni þar sem rútan okkar mun bíða og keyra á 4 stjörnu hótel í Pokhara. Þar grípum við kvöldmat og skoðum mannlífið um kvöldið.
6klst – 12km – 1300m lækkun.
Morgunmatur, hádegismatur.

Dagur 11 (15. nóvember)
Við tökum daginn snemma og kveðjum Pokhara, fljúgum aftur til Kathmandu. Þar sem komið er um hádegisbil aftur til borgarinnar er upplagt að nýta daginn til að slaka á, fara í nudd og jafnvel að versla smá.
Morgunmatur.

Dagur 12 (16. nóvember)
Frjáls dagur í Kathmandu sem hægt verður að nýta í skoðunarferð eða verslunarferð. Um kvöldið munum við sameinast í kvöldmat með nepölskum leiðsögumönnum okkar og skála fyrir góðri ferð.
Morgunmatur og kvöldmatur.

Dagur 13 (17. nóvember)
Í dag kveðjum við Nepal og höldum heim á leið til Íslands með töskurnar fullar af góðum minningum!
Morgunmatur.


Innifalið:

– Íslensk og Nepölsk fararstjórn
– Gisting skv. ferðaplani í tveggja manna herbergjum
– Ferðir til og frá flugvöllum
– Innanlandsflug til og frá Pokhara
– Skoðunardagur með leiðsögn í Kathmandu
– Gisting og matur á göngu að nepölskum sið
– Sameiginlegur kvöldmatur á degi 12 í Kathmandu
– Trúss á farangri á milli gististaða á göngu
– Þjóðgarðsleyfi og önnur gönguleyfi
– Undirbúningsfundur + 2 göngur á Íslandi

Ekki innifalið:
– Flug til og frá Kathmandu – Af Stað mun bjóða upp á ferðatillögu fyrir þá sem vilja fljúga saman
– Vegabréfsáritun (Visa) í Nepal (50 USD)
– Þjórfé á göngu fyrir burðarmenn og fararstjóra
– Tryggingar við ferðina*
– Matur og drykkir í Kathmandu sem ekki eru tilgreindir sérstaklega
– Annar matur og drykkir á göngu sem ekki tilgreindir eru í dagskrá, s.s. gosdrykkir, vatn og áfengir drykkir
– Snarl og millimál á göngu
– Önnur þjónusta á göngu, s.s. WiFi, sturta, þvottur o.fl.

Nánari upplýsingar eru veittar með tölvupósti á netfanginu info@afstad.com eða í síma okkar 790 2800.

Ath. takmarkaður sætafjöldi er í þessa ferð.

Verð : 389.000kr.

Greitt er 89.000kr. í staðfestingargjald við skráningu og telst sætið vera frátekið þá.
Greitt er 300.000kr. í lokagreiðslu eigi síðar en sex vikum fyrir brottför. Hægt er að skipta lokagreiðslu upp í allt að 5 greiðslur. Sendir eru reikningar á þátttakendur og greitt er með millifærslu.
Nánari upplýsingar um útbúnað, fyrirkomulag og dagskrá eru sendar með staðfestingarpósti.

Ferðaskilmálar

*Ferðatrygging, forfallatrygging, slysa- og sjúkdómatrygging ásamt neyðartryggingu (valkvætt) Global Rescue. Hægt er að fá þessar tryggingar hjá sínu tryggingafélagi en mikilvægt er að tilgreina hvert ferðinni sé heitið. Af Stað býður upp á ráðgjöf hvað þetta varðar.

Vertu í bandi – spurðu – komdu með!